02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

5. mál, lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Allshn. hefir leyft sjer að gera nokkrar brtt. við frv. það, sem hjer liggur fyrir, og vil jeg gera fyrir þeim nokkra frekari grein en gert er í nál.

Það er þá fyrst, að nefndin sjer ekki ástæðu til að takmarka iðgjaldagreiðslu í lífeyrissjóð og lífeyrisrjett ofan við 5000 kr. laun, þar sem aðalstefna frv. annars er sú að miða hvorttveggja alveg við launahæð. Þetta hvorttveggja, iðgjaldagreiðslan og lífeyrisrjetturinn, eins og hann er ákveðinn í 1. málsgr. 4. gr., hlýtur að haldast nokkurn veginn í hendur, það er að hækka og lækka í sömu hlutföllum, og erfiðara ætti það ekki að vera fyrir þá, sem laun hafa yfir 5000 kr., en þá, sem lægri laun hafa, að tryggja sjer og ekkjum sínum hlutfallslega hærri lífeyri. Þetta atriði hefir nefndin borið undir ýmsa, sem að frv. hafa starfað, og hafa þeir ekkert haft við brtt. að athuga, heldur þvert á móti verið henni yfirleitt fylgjandi. En af þessari 1. brtt. leiðir svo sem af sjálfu sjer brtt. 2. og 3. 4. og 6. brtt. eru að nokkru leyti miðaðar við það, hvað þinginu hefir undanfarið þótt hæfilegt að ákveða í fjárlögum til handa börnum, sem það hefir talið sjer skylt að annast (eins og t. d. börnum Þorsteins Erlingssonar), og að öðru leyti við eðlilega þörf hlutaðeigenda. 5. brtt. er bygð á þeirri skoðun, að orðið „ósæmilegur“ sje of óákveðið til þess að á því verði bygður úrskurður. Um 7. og 8. brtt. vísast að öllu leyti til nál.