19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

5. mál, lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra

Frsm. (Björn Hallsson):

Jeg vildi ógjarnan, að slíkur hvellur yrði út af orðum mínum sem áðan varð hjer í háttv. deild og ofreynt hefir suma háttv. þm. svo mikið, að þeir hafa ekki treystst til að sitja áfram kyrrir í sætum sínum.

Það hefir nú komið í hlutskifti mitt að vera frsm. þessa máls fyrir hönd allshn., og vil jeg því fyrst taka það fram, að nefndin hefir komið fram með brtt. á þskj. 332, en þess skal jafnframt getið, að brtt. nefndarinnar á þskj. 226 eru teknar aftur.

Af þessum breytingum leiðir aftur, að jeg þarf að fara nokkrum orðum um málið, af því að nefndarálitið er ekki alveg í samræmi við þessar síðari till. nefndarinnar. Frv. þetta er komið frá háttv. Ed. og er stjórnarfrv., þar sem steypt er saman lögum nr. 72 og 73 frá 1919, hin fyrnefndu um tryggingu embættismanna, en hin síðari um tryggingu ekkna þeirra, og á nú að gera þau að einum lögum. Hv. Ed. hefir gert þá breytingu á 3. gr. stjórnarfrv. að fella 2. málsgr. niður, sem hafði það ákvæði, að embættismaður greiddi aldrei af hærri launaupphæð en 5000 kr. í lífeyrissjóð, ennfremur, í samræmi við þessa breytingu, að ekkjur fengju jafnframt lífeyri, sem miðaður væri við alla launaupphæðina. Virðist þetta hvorttveggja sanngjarnar breytingar og hljóta að fylgjast að. Þá hefir háttv. Ed. hækkað meðlög eftirlifandi barna embættismanna, samkvæmt 8. gr. stjórnarfrv., um helming, og einnig meðlög foreldralausra barna, samkvæmt 11. gr. frv. Allsherjarnefnd vill nú færa þetta í sama horf og það var í stjfrv. aftur. Ástæðan til þess er sú, að nú virðast öll merki vera á því, að hámark dýrtíðarinnar sje um garð gengið, en með lækkandi vöruverði lækkar öll framfærsla ómaga. Styrk þennan má heldur ekki skoða sem fult meðlag, heldur sem ljetti við framfærsluna. Að vísu yrði heldur ekki fult meðlag sennilega goldið, þótt frv. háttv. Ed. yrði samþ. eins og það nú er, en langt gæti það farið, ef vöruverð nálgaðist það, sem það var fyrir stríðið.

Allsherjarnefnd virðist því mega una við það, sem hæstv. stjórn hefir lagt til í þessu efni, og sýnist það sanngjarnt. Þá skal jeg víkja að þeim breytingum sjerstaklega, sem allshn. leggur til að gerðar verði, auk þessara, sem jeg hefi þegar talið. Er þess þá fyrst að geta, að nefndin hugsaði sjer í upphafi, að breytingarnar á þskj. 226 næðu til allra embættismanna, hvort sem þeir væru nú í embættum eða yrðu síðar skipaðir. Við þetta kannast jeg. En við nánari athugun og brjef starfsmannaráðs ríkisins sá nefndin, að þetta var ekki rjett, því að þá væri brotinn rjettur á þeim embættismönnum, sem nú eru í embættum. Leggjum við því til, að hækkunin úr 7% í 8% í 3. gr. komi fyrst til framkvæmda fyrir þá embættismenn, sem skipaðir eru eftir 1. janúar 1922, en ekki gagnvart þeim, sem nú eru í embætti. Í samræmi við þessa breytingu er sú breyting á 5. gr., að ekkjur fái 3/10 lágmarkslauna manna þeirra úr sjóðnum, í stað l/5, og ætlumst við auðvitað til, að þetta komi heldur ekki í framkvæmd fyr en um næstu áramót. Þessi breyting styðst við það „princip“ okkar, að þessi 1/10 lágmarkslauna embættismanna, sem ekkjur eiga að fá úr ríkissjóði nú, falli niður. En hinsvegar viljum við ekki láta ekkjurnar missa neins í, og því leggjum við til, að gjald embættismanna í sjóðinn hækki um 1%. Haggast hlutfallið ekki neitt við þetta. Nefndin byggir þessa till. sína á því, að eftirlaun voru í raun og veru afnumin með lögunum um lífeyrissjóð embættismanna á þinginu 1919, nema þeirra, sem áttu þau eftir eldri lögum. Telur nefndin því þennan 1/10 eiga líka að falla niður, samkvæmt kröfu þjóðarinnar um afnám eftirlauna undanfarið.

Hinsvegar virðast launakjör embættismanna nú svo sómasamleg, að þeir eigi að geta staðið straum af ekkjutrygging sinni að öllu leyti. Er líka bent á það í aths. stjórnarinnar við frv., að embættismenn viðurkenni þetta fullkomlega. Sýnist því rjett að færa frv. í þetta horf nú, þareð þessum tveimur lögum, nr. 72 og 73 frá þinginu 1919, er slengt saman í eitt frv., og afnema þessar eftirlaunaleifar í framtíðinni.

Auðvitað verða þetta dálítið aukin útgjöld fyrir embættismenn, ef þessi breyting verður samþ., en nefndin telur víst, að þeir telji það ekki eftir sjer að sjá ekkjum sínum að öllu leyti fyrir ellistyrk, enda er sjálfsagt, að ekkjurnar missi einskis í, þó að þessu verði breytt.

Hækkunin er því 1/8% frá frv. stjórnarinnar, sem embættismenn, er skipaðir verða eftir 1. janúar 1922, eiga að greiða. Á því t. d. embættismaður með 4000 kr. launum eftir stjórnarfrv. að greiða 280 kr., en eftir breytingu nefndarinnar 320 kr., eða 40 kr. meira árlega. Eftir stjórnarfrv. er sömuleiðis lífeyrir ekkju af 4000 kr. lágmarkslaunum 1/5 launanna, eða 800 kr., og l/10 af 4000 kr., sem greiða skyldi úr landssjóði, eða 400 kr. Verður þetta til samans 1200 kr. En samkvæmt breytingu nefndarinnar verður þetta 1/10 af 4000 kr., sem líka gerir 1200 kr., svo að hlutfallið raskast ekkert. Launabyrði landssjóðs er nú orðin mjög mikil og vex með hverju þingi, sökum ýmsra nýrra embætta, sem sett eru á stofn, og því má eigi íþyngja honum meira en hægt er hjá að komast, jafnt í þessu efni sem öðrum. Í þessu sambandi má einnig taka það fram, að nú er landssjóður búinn að taka að sjer launagreiðslur til barnakennara, og hjer er líka á ferðinni frumvarp um lífeyri þeirra og ekkna þeirra. Virðist hæpið, að fullkomins rjettlætis gæti, ef embættismannaekkjur eiga að fá líffje úr landssjóði, en ekkjur barnakennara ekki, þar sem lögin eiga þó að öðru leyti að vera mjög lík. Raunar kosta embættismenn mikið meira til náms síns en barnakennarar, en þeir fá líka hlunnindi, þar sem börn þeirra fá árlegan styrk úr ríkissjóði að þeim látnum, en börn barnakennara ekki. En ef barnakennarar lentu líka á ríkissjóði með ekkjustyrk og meðlag með börnum þeirra, er hætt við, að þessi fúlga yrði öll nokkuð há. Nefndin bendir á, að þessi breyting sje í samræmi við ellistyrktarsjóðslögin, þar sem alþýðufólk leggur vist gjald árlega í sjóðinn og landssjóður á móti, en ríkissjóður leggur hjer til stofngjald lífeyrissjóðs embættismanna og ekkna þeirra.

Þótt tillaga nefndarinnar nái þannig ekki eins langt eins og hún hugsaði sjer í fyrstu, þá haggast grundvöllurinn, sem skoðun hennar bygðist á, samt sem áður ekkert, aðeins koma þessar breytingar, sem stungið er upp á, seinna í framkvæmd.

Jeg get hugsað mjer, að því verði haldið fram af einhverjum hv. þm., að þingið 1919 hafi gefið embættismönnum loforð um þennan 1/10 sem launaviðbót, þar sem þetta var sett í lögin jafnframt og laun þeirra voru ákveðin, en nefndin telur, að þetta atriði hafi eigi átt að vera undanskilið, úr því eftirlaun voru afnumin á annað borð.

Hinsvegar munu ýmsir þm. hafa verið þeirrar skoðunar, að að sumu leyti hafi verið gengið nokkuð langt í að láta undan kröfum embættismanna um launahæð, sem sýnir líka launabyrði sú, sem hvílir á ríkissjóði og hann fær varla undir risið.

Jeg skal annars játa það, að jeg er ekki eins kunnugur þessu máli eins og þeir, sem sátu þá á þingi, en jeg hefi lesið um það og kynt mjer það í þingtíðindunum eftir föngum. Það er svo ekki fleira, sem jeg þarf að taka fram að svo stöddu. Málið er heldur ekki svo flókið, að þess ætti að þurfa.