19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

5. mál, lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra

Magnús Jónsson:

Brtt. á þskj. 312 er í sambandi við brtt. allsherjarnefndar, og kom jeg fram með hana vegna þeirra, enda á hún við þær.

Jeg ætla fyrst að fara ofurlítið út í frv. Þetta frv. er eftir beiðni Sambands starfsmanna ríkisins. Stjórnin flutti það og breytti því til bóta, og það var samþ. í háttv. Ed. með örlitlum breytingum, sem bættu það einnig.

Fyrir starfsmönnum ríkisins hefir ekki vakað nein efnisbreyting, heldur aðeins breytt aðferð við að tryggja ekkjum lífeyri, og er alls ekki nein breyting í raun og veru, en annað skipulag. Hún verður á tvennan hátt, annars vegar að tryggingarnar verða innlendar og hins vegar það, að starfsmennirnir mynda nokkurskonar samábyrgð um ekkjutryggingu.

Þetta hefir stjórninni þótt gott, og hún hefir ekki að neinu leyti viljað nota tækifærið til að seilast til neins af launum embættismannanna um leið og skipulaginu væri breytt. Sama er um Ed., ekki reyndi hún til þess. En þegar málið kom í allshn. Nd. kom annað hljóð í strokkinn, og notaði hún tækifærið til að seilast í vasa embættismannanna eftir lítilfjörlegum skildingum. Það er yfirleitt hálfleiðinlegt, hvernig sýnist blása í garð starfsmanna ríkisins hjer í þessari háttv. deild, og hve hjer hefir kent tilrauna til þess að reyta af þeim upp í skuldirnar, þótt leiðin hafi reynst allgrýtt og torfarin, eins og lögleysuleiðir jafnan eru. T. d. var hjer um daginn útbýtt tveim upplögum af frv. í þessa átt áður dugði, og nú koma þessar brtt. í tveimur útgáfum.

En jeg ætla ekki að fara lengra út í þetta mál; það er hálfleiðinlegt að eiga við það. Starfsmenn ríkisins eru alveg grandalausir um, að minsta hætta sje að biðja þingið um þessa breytingu, og búast ekki við að það verði notað gegn þeim. En háttv. allshn. notar það til að narta í krásina, og er það ekki háttv. deild til sóma. Jeg get ekki fallist á það, sem háttv. frsm. (B. H.) lýsti yfir að væri skoðun nefndarinnar, að hún vildi ekki, að það, sem væri dregið úr, kæmi fram á ekkjunum. En ef það kemur fram á embættismönnunum, þá kemur það einnig fram á ekkjum þeirra. Það dettur víst ekki neinum í hug, að þær geti lifað af lífeyrinum, ef þær hafa engin önnur efni. Og ef brtt. nefndarinnar nær fram að ganga, þá hafa embættismenn við minna að búa, og þá verður minna að spara.

Það er tvent, sem nefndin hefir haft fyrir augum. Annarsvegar þetta „princip“ að afnema öll eftirlaun, og hinsvegar, að launakjör embættismanna hafi verið bætt, og þá eðlilega trygðu sjer lífeyri að öllu. Jeg veit ekki hve mikil „princip“festa þessari nefnd er veitt, en lengra hefði hún getað komist, ef hún hefði viljað fylgja því út í æsar. Þá má ríkissjóður ekki styrkja stofnsjóðinn og ekki leggja ekkjum og börnum starfsmanna ríkisins, eða neitt slíkt. En það er í raun rjettri hlægilegt að elta „princip“ í slíkum smámunum.

Þá eru launakjör embættismanna og starfsmanna ríkisins. Það er svo oft búið að segja, að þau hafi verið bætt og þau sjeu núna svo há. En það er alkunnugt, að hin föstu laun með dýrtíðaruppbót núna eru lakari en launin voru fyrir stríðið. Það, sem þau voru hækkuð, miðaði ekki til að bæta launin, heldur fremur til að hamla upp á móti verðfalli peninga, og það er viðurkent, að einkum áður en vara lækkaði, þá voru launin langt fyrir neðan það hlutfall, sem hefði átt að vera við launin áður.

Þetta má líka sjá, því að nefnd var skipuð til að rannsaka launakjör embættismanna, og starfaði hún 1914–15 og gerði tillögur um launin. En 1919 voru launakjörin stórum breytt og bætt með launalögum. Þó orkar tvímælis, hversu mikil sú bót er, því að með henni var embættismönnum lögð á herðar sú skylda, að annast lífeyri sinn og ekkna sinna, svo að ekki er hægt að segja, að þessi trygging sje fengin fyrir ekki neitt. Það er því ómögulegt að segja annað en að rjettlátt væri, að ríkissjóður tæki ofurlítinn þátt í ekknatryggingunni. Það er ekki annað en viðurkenning frá ríkinu um, að ekki sje rjettlátt með launum embættismanna að skylda þá til að taka ekkjutrygginguna alla.

Jeg legg ekki mikið upp úr tillögum nefndarinnar, en finst þær lýsa nokkurskonar smásálarskap, að vera að seilast í vasa þessara manna eftir örfáum krónum; þess vegna kom jeg með mína brtt. Jeg hefði helst viljað fella niður öll skilyrði í 10. gr. Eftir henni á ekkja ekki að fá að njóta lífeyris, sem hún í raun og veru á, þar sem maður hennar hefir safnað til hans. Jeg mun samt ekki fara fram á, að því sje breytt öllu. T. d. ef ekkjan er svo stæð, að hún hirðir ekki lífeyrinn árum saman, eða ef hún gerir sig seka í því, sem er svívirðilegt athæfi að almennings áliti, þá tel jeg það töluvert meiri ástæðu til að láta hana missa lífeyris, heldur en af hinum ástæðunum, sem nefndar eru.

Jeg sje ekki ástæðu til að svifta ekkju lífeyrinum, þótt hún giftist aftur. Og það, að svifta ekkju styrk, þó að hún tæki sjer bústað utanríkis, án konungsleyfis, álít jeg ekki sanngjarnt.

Einkum verð jeg að leggja áherslu á brtt. mínar, ef brtt. nefndarinnar verða samþyktar, því að þá er einvörðungu um það fje að ræða, sem safnað hefir verið af fjelagsbúi hjónanna, og því hart, að svifta ekkjuna beinni eign sinni.

En jafnvel þótt brtt. nefndarinnar yrðu feldar, svo að um örlítinn ríkissjóðsstyrk væri að ræða í og með, sje jeg ekki annað en að brtt. mínar væru sanngjarnar.

Jeg skal játa það, að ef brtt. mínar verða samþyktar, þarf að samræma ofurlítið við þær síðar, en jeg hefi ekki hirt um að gera það vegna þess, að mjer skilst, að það verði hvort sem er að gerast, ef brtt. nefndarinnar verða samþyktar, og stendur þá til bóta við 3. umr. Nefndin hefir sem sje afnumið „líffjeð“ úr ríkissjóði, en þá ætti einnig að nema það burtu úr frv. síðar, og miða jafnan við lífeyrinn einan.