19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

5. mál, lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra

Frsm. (Björn Hallsson):

Sem vænta mátti þurfti háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) að tala um brtt. sínar á þskj. 312 o. fl.

Nefndin sjer ekki ástæðu til að samþykkja þær, ef tillögur hennar um málið ná samþykki deildarinnar.

Háttv. þm. (M. J.) sagði, að starfsmenn og embættismenn ríkisins hefðu ekki viljað breyta þessum lögum um leið og þau eru færð saman í heild. Þó að svo sje, þá veit hv. þm. (M. J.) það, að frv. þessu var vísað til allshn. þegar það kom frá hv. Ed. Af því leiddi það aftur, að nefndin varð að taka afstöðu til þess í áliti sínu, eftir því sem henni kom saman um að væri rjettast, Þótt álit og till. hennar sje ekki alveg í samræmi við álit starfsmanna ríkisins, getur nefndin ekki gert að.

Nefndin telur óþarft, að embættismenn haldi þessum eftirlaunarjetti, þar sem laun þeirra eru nú að miklum mun bætt og þeim ætti engin vorkunn að vera að annast ekkjutrygging sína að öllu leyti. En auðvitað veit jeg það, að embættismenn telja laun sín seint nógu há, en ríkissjóður er farinn að verða var við, hvað kostar að fóðra þennan stóra hóp.

Háttv. þm. (M. J.) sagði, að það kæmi fram í nál. og till. allshn., að hún væri að seilast í vasa embættismanna eftir greiðslu. Jeg get ekki fallist á það, þótt nefndin álíti, að þeir sjeu svo efnalega sjálfstæðir, að þeir geti sjeð sjer og sínum farborða, að það sje að seilast í vasa þeirra. Það er ætlast til, að sjálfbjarga menn sjái fyrir sjer sjálfir, og því þurfi ekki að styrkja þá af opinberu fje. Embættismönnum er ekki vorkunn að spara við sig til elliáranna, sjer og ekkjum þeirra til styrktar.

Háttv. þm. (M. J.) sagði, að ekki ætti að duga minna en að hafa brtt. í tveim útgáfum. Jeg tel það engan vansa að taka það aftur, sem miður er, og koma með annað betra í staðinn, eftir að hafa hugsað málið. Hann var líka að tala um það, að við værum að narta í embættismennina, en jeg er búinn að segja það áður, það er ekkert verið að narta í þá, heldur að eins ætlast til, að þeir standi á sínum eigin fótum, og búið.

Hann hjelt því fram, að nefndin áliti, að það kæmi ekki niður á ekkjunum og börnunum. En hlutfallið er það sama. Mjer er reyndar ekki kunnugt um, hvað vel þeir halda á peningum sínum; jeg get ekkert sagt um það, en mjer finst upphæðin ekki svo stór, að þeir muni ekki vera lengi að eyða henni í einn eða annan óþarfa, sem þeir gætu neitað sjer um sem því svaraði, sem þeir þurfa að greiða meira í lífeyrissjóð. Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) sagði, að jeg, eða nefndin, færi út í öfgar. Við vildum fella alla styrki. Háttv. þm. (M. J.) fer sjálfur út í öfgar, því að hann getur með engri sanngirni sagt, að nefndin vilji fella niður alla styrki, til ekkna, barna og yfirleitt hverju nafni sem nefnist. Þessu er alls ekki svarandi. Nefndin tekur það skýrt fram, að hún telur það ekki ósanngirni, þó að þeir sjái fyrir ekkjum sínum, og þurfi ekki styrk til þess. En börn þeirra hafa uppeldisstyrk, og hefir nefndin ekkert hreyft við honum. Við alþýðumenn verðum að sjá fyrir ekkjum okkar og börnum sjálfir, eða þá að þau verða að fara á sveitina, ef við getum það ekki. Ekki heyrist á embættismönnunum, að þeir vorkenni okkur það hlutskifti.

Að launin sjeu lægri núna en fyrir stríðið, er því til að svara, að 1919 voru launalögin samin, og fá embættismenn laun eftir þeim og dýrtíðaruppbót. Launin eru því sniðin eftir hámarki dýrtíðar, eða því sem næst, og dýrtíðaruppbót fá þeir. hlutfallslega eftir verðhækkun í landinu. Verður því alls ekki sjeð, að launakjör þeirra sjeu verri nú en fyrir stríðið, nema síður sje.

Jeg þarf ekki að svara háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) viðvíkjandi ósamræminu, sem hann sagði, að yrði á frv. Hæstv. fjrh. (M. G.) tók þar af mjer ómakið.

Svo eru það aðeins fáein orð, út af því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði. Jeg er honum þakklátur fyrir liðlegar undirtektir, þótt hann segðist helst hefði viljað láta frv. sitja við það eins og háttv. Ed. skildi við það. En þess vegna er málið komið fyrir Nd., að það á að ræða það þar, og hefir þessi deild að sjálfsögðu rjett til þess að gera þær breytingar, sem henni virðast rjettar. Það er því ekki tiltökumál, þótt hvor deildin um sig taki ekki alt gott og gilt, sem kemur frá hinni deildinni. Afleiðingin getur auðvitað orðið sú, að málin fari í sameinað þing. Um það er ekkert að segja; það er ekki nema eðlilegt, því að báðar deildirnar eru jafnrjettháar í þessu efni. Það er því ekki hægt að ætlast til þess, að þessi háttv. deild beygi sig endilega fyrir skoðunum háttv. Ed., ef það stríðir á móti sannfæringu deildarmanna.

Fleira hefi jeg ekki skrifað hjá mjer, sem svara þurfi.