04.05.1921
Efri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

5. mál, lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg er samþykkur því, að nauðsynlegt sje, að góð samvinna sje á milli allsherjarnefnda beggja deilda. En jeg skoða það eigi neina áreitni í garð allsherjarnefndar Nd., þótt brtt. nái fram að ganga, því að þær eru gerðar eftir óskum embættismannafjelagsins og eru nauðsynlegar vegna þess, að háttv. Nd. hafði breytt frv. frá því? sem stjórnin lagði það fyrir þingið og þessi deild hafði samþykt.

Háttv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) verður að viðurkenna það, að hjer er á leiðinni grímuklædd breyting á launalögunum frá 1919, því að þar er gert ráð fyrir, að ekkjur embættismanna njóti forrjettinda, sem nú á að kippa burtu, án þess að nokkuð sje sett í staðinn. Og laun þeirra embættismauna, sem skipaðir eru eftir 1922, eru lækkuð um 1%. Jeg get ekki getið mjer þess til, að þingið ætli að nota tækifærið til þess að lækka laun embættismanna, án þess að spyrja þá nokkuð um.

Jeg leyfi mjer því, fyrir hönd mína og háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), að ráða háttv. deild til að samþykkja brtt. á þskj. 450, og fella þar með þessi ákvæði burt úr frv. aftur. Ef það verður ekki gert, mun jeg greiða atkv. á móti frv.