08.04.1921
Efri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

25. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Frsm. (Karl Einarsson):

Það eru aðeins fáein orð. Jeg vil fyrst þakka háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) fyrir orð hans í garð nefndarinnar. — En að því er snertir brtt. nefndarinnar við 25. og 26. gr. frv., þá hefir nefndin athugað þær svo, að ekki getur komið til mála að hún taki þær aftur.

26. gr. frv. tel jeg algerlega óþarfa. Hún er aðeins til óþæginda. Þótt jeg t. d. hafi athugað ranglega, hvernig bærinn yrði bygður og keypt lóð, sem yrði verðminni sökum þess, hvernig göturnar væru ákveðnar í skipulaginu, þá kemur ekki til mála að jeg fengi skaðabætur, þótt jeg segði, að jeg hefði haldið að þær mundu lagðar öðruvísi.

Hitt, að heimila að taka íbúðarhús eignarnámi, kann jeg ekki við. Og háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) hefir ekki fært nægileg rök fyrir því, að þess sje þörf. — Flest hús hjer á landi eru þannig bygð, að þau hrörna fljótt. Sökum þess tel jeg rjett að láta hús standa, þótt lega þeirra riði í bága við hið ákveðna skipulag, enda þótt skipulagið komist auðvitað ekki eins fljótt á, sje þeirri reglu fylgt.

Nefndin getur því ekki tekið aftur 12. brtt., og álítur þar farið nógu langt í bili. Ef reynslan skyldi sýna, að þörf væri á ákvæði, sem heimilaði að taka íbúðarhús eignarnámi, þá má altaf breyta svo að segja strax, þar sem þing kemur nú saman árlega.