09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

25. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Jeg bað þess á laugardaginn, þegar mál þetta var til umr., að það yrði þá tekið af dagskrá, til þess að nefndinni gæfist kostur á að íhuga brtt. þær, sem þá komu fram frá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Aðaltillagan gekk út á það, að ákvæði um skipulagsmælingar næði aðeins til kauptúna, sem hefðu 500 íbúa og þar yfir. Það hefir orðið samkomulag í nefndinni að leggjast ekki gegn þessari tillögu. Eins og kunnugt er, leiðir af mælingum þessum og áætlunum mikill kostnaður, og þegar svo stendur á, að þorpin eru lítil og ekki er útlit um vöxt þeirra í náinni framtíð, virðist varhugavert að leggja í þennan kostnað þeim viðvíkjandi. Þetta ætti ekki að þurfa að koma að tjóni, því að í frv. er heimild til þess að láta mælingar fara fram, ef viðkomandi hreppsnefnd óskar eða ef skipulagsnefnd þykir nauðsyn til bera. Með þessu er trygt, að skipulag kemst á samt sem áður, þar sem þess er brýnust þörf.