21.05.1921
Efri deild: 79. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

Starfslok deilda

forseti (G. B.):

Þetta eru tölurnar, en hitt er meira um vert, að vjer höfum hjer í efri deild haft til meðferðar óvenjumörg og mikilsverð málefni. Má þar nefna frv. til laga um hlutafjelög og þau þrjú sifjamál, sem afgreidd hafa verið sem lög frá Alþingi, — þessa miklu rjettarbót, er vafist hefir fyrir þinginu undanfarin ár, en er nú loks farsællega til lykta leidd fyrir mikla vinnu og dugnað deildarmanna.

Þá ber að geta eins nýmælis, frv. um skipulag kauptúna og sjávarþorpa, og tveggja þingmannafrv. mjög mikilvægra: Fyrst frv. til laga um samvinnufjelög, og loks síðasta og mesta vandamálsins, sem legið hefir fyrir þessu þingi: peningamálin, bankamálin. Það er ekki um of sagt, að þetta er mesta vandamálið, sem fyrir þinginu lá, og hefir þessi deild ótvírætt átt mestan þátt í því, hve farsællega það nú er til lykta leitt.

Jeg veit, háttv. þingbræður, þið minnist þess, að þegar við komum hingað í vetur, þá settumst við á þingbekkina í þungum þönkum, því við vissum, að nú voru erfiðari tímar á þessu landi en nokkru sinni áður í okkar minni, jafnvel erfiðari en meðan ófriðurinn mikli stóð yfir. Við vissum líka, að aldrei höfðu fyrir Alþ. legið svo mörg og mikilsverð mál, og aldrei verið úr vandara að ráða í því efni að bjarga þjóðinni fram úr fjárhagsklungrum. Jeg, sem ekki hefi annað gert en stjórna störfum þingsins, get sagt, að því meira fagnaðarefni er það, að alt hefir ráðist betur en á horfðist. Það er kunnugt, að þjóðin bar lítið traust til þessa þings í vetur þegar það kom saman. Hún vissi, að þar var enginn fastur flokkur og flest í molum, og vænti þess vegna lítilla afreka. En þetta hefir farið á alt aðra leið; og verð jeg nú að lýsa yfir því, að jeg hefi aldrei vitað betur unnið á Alþingi en í vetur, — enda hefði ekki ella tekist að leiða svo ótalmörg vandamál til lykta, sem auðið varð.

Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að einn af elstu og reyndustu mönnum þingsins sagði við mig í morgun, að hann færi nú miklu glaðari af þingi en hann hefði komið. — Það hefir því miður ekki æfinlega verið hægt að segja svo; en jeg vona, að í þetta skifti getum við allir tekið undir orð þessa aldna manns.

Nú vil jeg óska, að þetta mikla starf megi koma að tilætluðum notum, að þjóðin megi leysast úr læðingi fjárkreppunnar og hagur hennar blómgast á allar lundir. Jeg veit, að háttv. fundarmenn eru einhuga um það að óska fósturjörðinni allrar blessunar, og bið jeg menn að standa upp úr sætum sínum því til sönnunar. (Allir stóðu upp).

Að lokum vil jeg svo þakka ykkur, háttv. þingbræður ljúfa samvinnu og óska ykkur góðrar heimferðar og heillar afturkomu. Segi jeg svo störfum deildarinnar á þessu þingi lokið.