18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

28. mál, bifreiðaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg verð að segja, að háttv. 1. þm. Ám. (E. E.) fekk mig til að undrast, eins og svo oft áður, þegar hann kom að enda ræðu sinnar, þegar hann sagði, að hann ætlaði að greiða atkv. með frv. Jeg skal taka það fram, út af því, að hann ætlaðist til, að það væri strax farið að bæta vegina fyrir þetta fje, þá er það ekki hægt, ekki fyr en 1922, fyr verður það ekki innheimt. (E. E. : Hvenær sem það yrði).

Háttv. frsm. minni hl. (Jak. M.) talaði um, hvers vegna bifreiðar væru skattlagðar, en ekki önnur flutningatæki. Bifreiðar spilla meira vegunum og þurfa betri vegi; þess vegna þarf að hugsa fyrir því að búa til slíka vegi. Svo eru hestar einnig skattlagðir, og það gæti verið gagn að því að athuga hlutfallið milli hesta og bifreiða.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) efaðist um, að þessu fje yrði varið til þess að bæta vegina, og sama heyrðist mjer á hv. 1. þm. Árn. (E. E.). Það verður auðvitað ekki sama fjeð, því að það hlýtur að verða miklu meira fje varið til þess, og vegna bifreiðanna þarf meira fje til þess en ella. Er því rjettlátt, að lagður sje á þær skattur, eða þær leggi til fje til þess að viðhalda vegunum. En ef þeir sjálfir vildu taka það að sjer, þá væri það gott, en svo er ekki sagt, að þeir feugjust allir til þess.

Jeg vil halda fast við það, að 200–300 kr. skattur sje ekki mikið. Sá, sem hefir svona miklar tekjur, finnur sáralítið til þess.

Hvað það snertir, að skatturinn muni margfaldast. eða um 50%, eins og háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) sagði, þá er það fjarstæða. Það eru alls ekki líkur til þess að nokkra bifreið muni uni það minstu vitund — ekki minstu vitund.

Háttv. sami þm. (M. J.) var að bera þá fyrir brjósti þarna austan fjalls, en jeg held að óhætt sje að láta háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) um það, fyrst hann er fylgjandi skattinum.