20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Jeg býst varla við því, að fjhn. geti gengið að þessum brtt., þótt annars sje erfitt að átta sig á þessu í skjótri svipan. En út af ræðu háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) verð jeg að gera örfáar athugasemdir. Hann sagði, að bílarnir slitu aðeins slitlagi veganna. En þetta er ekki rjett. Mjer er persónulega kunnugt um það, að þeir róta upp vegunum miklu dýpra, og hefir það greinilega komið fram í viðhaldskostnaði veganna austanfjalls. Einnig þurfa að vera skýr ummæli um það, að þótt þessi umrædda notkun skattsins yrði samþ.. bæri slíkt aðeins að skiljast sem viðbót við þann styrk, sem annars yrði veittur til vegabóta, en ekki þannig, að skatturinn ætti að koma upp í þann kostnað, svo að klípa mætti af vegaviðhaldskostnaðinum að öðru leyti, sem skattinum næmi. Þetta vildi jeg að eins taka fram til skýringar, en skal annars ekki tefja háttv. deild á því að lengja umr. meira.

Jeg fæ ekki sjeð, að jeg þurfi að mæla frekar um þetta, og vona að háttv. deild sje svo föst í rásinni og þjett fyrir, að hún láti ekki hringla sjer nje snúa frá rjettu máli, og leyfi því frv. þessu að ganga óbreyttu til hv. Ed. Þar uppi veit jeg, að sæti eiga á þingbekkjum góðir menn og greindir, sem jeg einnig treysti vel til þess að skilja nauðsyn þessa máls.