20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

28. mál, bifreiðaskattur

Jón Þorláksson:

Jeg dáist mjög að ósjerplægni háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.), er hann kemur hjer fram fyrir kjördæmi sitt. Jeg orðaði tillögu mína þannig, að mitt kjördæmi gæti ekki að neinu notið hlunninda þeirra, er brtt. mínar fara fram á, því að öllu fjenu á að verja til vega utan kaupstaða. Og eins og brtt. mínar eru orðaðar, myndi mikið af þessu fje renna til Árnessýslu, eða verða henni að notum, og vita allir, að við veginn austur og fyrir austan fjall þarf mikið að gera.

Háttv. frsm. meiri hl. (Þorl. G.) taldi, að ekkert myndi muna um þessa upphæð, og að meiru yrði ekki varið til vegabóta en því, sem skattinum nemur. En þetta er rangt. Frv. gerir ráð fyrir því, að þetta verði aðeins notað til að greiða aukakostnað þann, sem bílhæft slitlag hefir í för með sjer, umfram venjulegt slitlag. Brtt. mínar stefna beint að því að endurbæta vegina og koma á framförum í vegagerð. Við getum ekki lengur unað við svo ófullkomna vegi og þá, sem við höfum nú við að búa. Við þurfum að endurbæta slitlagið, annaðhvort með grjótmulningi, tjörusteypu eða öðru efni, því að vegirnir þurfa að verða sterkari og betri vegna hinnar vaxandi umferðar. Og upphæðin, sem gera má ráð fyrir að komi inn með skatti þessum, er ekki svo lítil, að ekki megi talsvert vinna fyrir hana árlega að þessum endurbótum. Í skjölum stjórnarinnar er ekkert um það að finna, hve hár þessi skattur muni verða. (Fjrh.: Ekki rjett). Ja, jeg hefi ekkert sjeð um það í gögnum þeim, sem fyrir liggja frá stjórninni. En eftir því, sem jeg hefi heyrt, þá mætti áætla hann alt að 50 þús. kr. á ári, samkvæmt skatthæð þeirri, sem samþ. var hjer við 2. umr. Og það er ekki sá verðmunur að gera slitlag úr tjörusteypu eða grjótmulningi, móts við venjulegt malarslitlag, að ekki muni um 50 þús. kr. á ári. Enda myndi þess fljótt sjá stað, ef þessari upphæð yrði varið árlega umfram upphæðir þær, er veittar yrðu í fjárlögum til vegaviðhalds og vegaendurbyggingar, og verða til hagsmuna fyrir ríkissjóð og gleði landsmönnum, því að allir vegir, sem vel eru gerðir, þurfa margfalt minna viðhald en ljelegir malarvegir.