20.04.1921
Neðri deild: 48. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Jeg er ánægður yfir því, að háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) er mjer sammála um það, að upphæð sú, sem kemur inn með skattinum, muni lítið hrökkva til vegaviðhaldsins, og að langt um meira þurfi að koma úr ríkissjóði, því að jeg tók það fram, að meira þyrfti en slitlag. Það getur því aðeins komið að haldi, að vegirnir verði fyrst bygðir upp; ekki til neins að setja slitlag á þá vegi, sem nú eru ófærir með öllu. En jeg get ekki skilið, að það verði betur gert við vegina, þó að skatturinn verði látinn renna í þennan sjóð, sem brtt. fer fram á. Veitingarvaldið er það sama og sjóðurinn hlýtur altaf að vera fjelítill, og tillög hans því ónóg.

Háttv. þm. (J. Þ.) sagði, að ekkert hefði komið fram, hvorki frá stjórninni nje nefndinni, um það, hvað skattur þessi myndi verða hár. Þetta er ekki rjett. Jeg skýrði einmitt frá þessu í framsöguræðu minni, og hæstv. fjrh. (M. G.) hefir líka gert það. Við höfum báðir bent á, að hann myndi nema 40–50 þús. kr., og virðist háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) vera líkrar skoðunar, og hefði því getað sparað sjer þessar aðfinningar.

Jeg þakka háttv. sama þm. (J. Þ.) það, að hann sagði, að jeg væri ósjerplæginn maður, vegna þess, að jeg vilji íþyngja kjósendum mínum. (B. J.: Með nýjum sköttum). Jeg bið háttv. þm. Dala. (B. J.) að hugsa um sig og sínar ræður, en lofa mjer að stumra upp í friði því, er jeg vil segja og hefi fult eins gott vit á eins og hann. Jeg hefi hingað til hugsað sjálfur, og frábið mjer aðstoð hans að koma orðum að því, sem jeg þarf að segja, og óska, að háttv. þm. (B. J.) haldi sjer saman á meðan jeg tala. Þessi ósjerplægni mín kemur af því, eins og jeg tók fram í framsöguræðu minni við 2. umr. þessa máls, að þessi skattur á að koma til þess að jafna þann órjett, sem þeir verða að líða, er búa á þeim stöðum á landinu, þar sem ekki eru aðrir vegir en þeir, sem lagðir eru af náttúrunni eða hestafótum.

Og jeg ber engan kinnroða fyrir það, þó að jeg vilji með sanngirni taka fje af þeim mínum hjeraðsbúum, er nota bíla til ferða, til að bæta úr þessu og jafna þennan órjett, því að jeg er fyrst og fremst þm. fyrir landið, og ber að líta eingöngu á hag þjóðarheildarinnar, þangað til að aðrir háttv. þm. fara að vinna beinlínis fyrir sín kjördæmi, þá ber mjer að toga í minn enda, svo að hlutur míns kjördæmis verði ekki fyrir borð borinn.