23.04.1921
Efri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

28. mál, bifreiðaskattur

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg skal ekki verða langorður að þessu sinni, en þar sem mjer er manna kunnugast þetta mál, get jeg ekki látið vera að gera grein fyrir skoðun minni á því. Jeg verð þá að játa það, að mjer finst þessi skattur alls ekki vera sanngjarn. Hann er of hár, og meira að segja talsvert hærri en hjá öðrum þjóðum, sem hafa þó langt um betri vegi að bjóða sínum farartækjum en við. Hjer er um nýmóðins farartæki að ræða, sem hafa þegar orðið mörgum til þæginda hjer á landi, og mjer finst lítil fyrirhyggja að þröngva mjög kosti þeirra með óhóflegum sköttum. Það gæti verið öðru máli að gegna, ef hjer væri að ræða um farartæki, sem keptu við einhver farartæki ríkisins og hnektu framgangi þeirra. En hjer er ekki um það að ræða. Þessi farartæki hafa þegar sýnt það, að þau eru mjög þörf hjer á landi, enda er þeim altaf að fjölga.

Það eina, sem menn geta fundið að bifreiðunum, og það, sem er þá líka aðalástæðan fyrir skattafrv. þessu, er það, að þær slíti mjög vegunum, einkum þó flutningsbifreiðarnar. Og mjer finst þó einmitt, að frv. hafi fengið bót í hv. Nd., þar sem lagt er til, að stofnaður verði sjóður, sem verja eigi úr fje til viðgerða þessum vegum, sem fyrir mestu sliti verða. Er með þessu að nokkru dregið af því, hve tilfinnanlegt þetta gjald yrði ella bifreiðaeigendum, því að þar fá þeir að nokkru leyti fje sitt aftur í bættum vegum, því að það ver bifreiðarnar sliti.

Jeg er því alls ekki samdóma hæstv. fjrh. (M. G.) um, að þessa gr. beri að fella burt, heldur tel jeg það mikla bót á frv.