04.05.1921
Efri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Eins og sjá má af nál. meiri hl. á þskj. 422, hefir nefndin ekki getað orðið samferða um þetta frv. Meiri hlutinn leggur til, að það nái ekki fram að ganga, og færir fyrir því ástæður í nál. sínu. Þarf jeg ekki mörgu við það að bæta, en þó má drepa á nokkur atriði.

Eins og kunnugt er, var hjer í Reykjavík áður fjöldi hesta, sem notaðir voru til ferða og flutnings, því að þá voru hestar og kerrur aðalflutningatækin. — Þetta er nú horfið, eða er að hverfa, og í þess stað komnar bifreiðar. Bifreiðarnar verður því, nú orðið, að skoða sem almennings flutningatæki hjer, eins og t. d. sporvagnar og járnbrautir eru erlendis, því að annað tæki er ekki til. Og bifreiðarnar verður líka jafnframt að skoða sem menningartæki. Það er þeim að þakka að ferðalög geta orðið þægilegri og fljótari en á annan hátt, og ekki dýrari.

Að vísu veit nefndin það, að sumir telja bifreiðarnar vera ofnotaðar, að menn ferðist með þeim að óþörfu. En alt má nota í óhófi, og með öllum farartækjum má ferðast að óþörfu. Og það er víst líkt um skipin, að menn ferðast með skipum, þótt eigi sje brýn þörf, sjer til skemtunar. Eins tóku menn áður hesta sína, og taka enn, þar sem þeir eru til, og spretta úr spori sjer til skemtunar og hressingar, og datt þó engum í hug að leggja sjerstakan skatt á reiðhesta þess vegna. En þótt slík ferðalög sjeu talin óþörf, þá er og á það að líta, að mönnum er líka nauðsynlegt að ljetta sjer upp í hófi.

Tekjur af frv. þessu munu ekki verða eins miklar og stjórnin áætlar. Hestaflatala bifreiðanna hjer er víst talin eins og Ameríkumenn telja, en skattskylt hestafl er á Norðurlöndum reiknað alt öðruvísi. Munar það víst alt að helmingi, sem hestaflatalan verður lægri á Norðurlöndum. En annars er nú hvergi ákveðið í frv., eftir hvaða reglu á að reikna hestaflið.

Ef farið er að leggja slíkan umferðaskatt á bifreiðar, þá er ósamræmi í því að taka ekki sams konar skatt af öllum umferðatækjum; þá ætti t. d. að taka gjald af hverjum farseðli og hverju farmbrjefi með skipunum, eftir sömu reglu.

Nál. minni hlutans þarf jeg ekki að svara. Það hrekur í engu ástæður þær, sem meiri hlutinn hefir fært fram í áliti sínu.

Annars var það ekki ætlun mín að halda langa ræðu. Það, sem aðallega ber á milli, er það, hvort þessi farartæki sjeu óþörf, og vona jeg, að háttv. deild fallist á ástæður meiri hlutans og láti frv. ekki ganga fram.