04.05.1921
Efri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. minni hl. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg mun ekki bæta miklu við það, sem stendur í nál. minni hl. á þskj. 447. Þetta mál lá hjer líka fyrir þinginn 1919, og varð þá nokkurt deilumál. Andmælendur skattsins hjeldu því fram þá, eins og nú, að skatturinn sje sjerstaklega skattur á framförum. En nú vil jeg spyrja þá: Erum við ekki altaf að leggja skatt á framfarir? Við látum fiskiskip borga lestargjald, afgreiðslugjöld, vitagjöld og útflutningsgjald af afla sínum, og þetta þykir nauðsynlegt. En eru þetta ekki líka skattar á framförum? Mjer virðast ferðalög ekkert rjetthærri en aðrar framfarir og framkvæmdir.

Háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) játaði þó, að ferðalögin með bifreiðum væru ekki nema að nokkru leyti nauðsynleg. Flutningabifreiðar aftur á móti eru nauðsynlegar, og af þeim er í frv. gert að greiða mjög lágan skatt.

Einkum virðist mjer þessi skattur ekki vera tilfinnanlegur, þegar þess er gætt, að honum á að verja til viðgerða á þeim vegum, sem bifreiðar nota. Honum er því varið beint í þarfir greiðenda. Því meira sem gert verður við vegina og því betur sem það er gert, því lengur endast bifreiðarnar, sem um þá fara, og því minni verður viðhaldskostnaður þeirra. Ekki er þó hægt að segja hið sama um gjöldin af fiskiskipunum og önnur gjöld til ríkissjóðs yfirleitt. Þau ganga ekki beint til þess að hlynna að þeim atvinnuvegum, sem þau eru lögð á. Með þessu þykist jeg hafa fært rök að því, að þessi skattur sje ekki ósanngjarnari en aðrir skattar.

Jeg hirði ekki að ræða um mismunandi álit manna um það, hver flutningatæki spilla mest vegunum. Þó held jeg nú að fleiri hallist að því, að það sjeu bifreiðarnar. Enda þarf ekki annað en að fara um þá vegi, sem þær eru notaðar á. Þá mun sjón sannfæra þá, sem sannfærst geta.

Háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) sagði, að hestar og kerrur væru að hverfa sem flutningatæki. Jeg neita þessu. Hestar eru víðast ennþá aðalflutningatækið, og svo kerrur, þar sem hægt er að koma þeim við. (B. K.: Jeg meinti mannflutningakerrur). Þær hafa nú svo sem aldrei verið til. Og það eru ekki nema mjög takmörkuð svæði, þar sem bifreiðar verða að notum. Það er helst hjer í Reykjavík og nágrenni hennar, austanfjalls og uppi í Borgarfirði. Og mig uggir, að mótstaðan gegn skattinum stafi nú meðfram af því, að hjer eru gjaldendurnir við hendina. Annars efast jeg um, samkvæmt því, sem jeg hefi áður sagt, að gjaldendunum sje nokkur greiði ger með því að hamla því, að skatturinn komist á, þar sem hann á aftur að koma þeim til hagsbóta í betri vegum.

Mjer virðist því, eftir öllu, sem fram hefir komið í máli þessu innan þings, að hv. deild geti vel sjeð sjer fært að samþ. frv.