04.05.1921
Efri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

28. mál, bifreiðaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. frsm. meiri hl. (B. K.) tók fram, er jeg mintist á skipin, að sá skattur, sem á þau væri lagður, væri vart teljandi. Það má vera, að þar muni miklu, en það þarf heldur ekki að leggja dýran akveg yfir sjóinn fyrir þau. Háttv. þm. (B. K.) sagði, að í Danmörku væri skatturinn 2 kr. á hestorkuna. En jeg verð að halda því fram, að það sje aðeins eftir gömlum lögum, því að nú mun það vera 5–45 kr. á hestorkuna, og hafa eigendur bifreiða þar samþykt þann skatt. —Það er rjett hjá háttv. þm. (B. K.), að stjórnarráðið mun ákveða taxtana, og við hitt verður tæplega ráðið þá, fremur en nú, hvernig farið verður eftir þeim.

Jeg verð að álíta, að hjer sje verið að stíga spor í rjetta átt, og þetta geti með tímanum orðið til talsverðra bóta fyrir vegakerfi okkar. Skatturinn sjálfur munar svo örlitlu á hverja bifreið, að menn munu varla verða hans varir. Það verða einar 140 kr. á hverja bifreið, og er það hverfandi í samanburði við tekjur hennar. Geri jeg ráð fyrir, að menn muni með tímanum sjá, að það borgi sig að borga t. d. 50 aurum meira fyrir sig hjeðan til Þjórsárbrúar en ella, og fá í mót bætta vegi, og svo með tímanum lægri fargjöld. (B. K.: Það verða nú aldrei unnin nein stórvirki fyrir það fje, sem hefst inn með þessum skatti). Jeg veit, að það muni ekki hrökkva til, ef ekki verður veitt fje úr ríkissjóði í viðbót, en talsvert mun það þó duga.

Jeg veit, að það eru ólíkt erfiðari samgöngur hjer en í Danmörku, en svo er það nú eitt sinn, og verður því ekki breytt. Við verðum að líta á það eins og það er og haga okkur í öllu eftir okkar staðháttum.