11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

28. mál, bifreiðaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg get sagt svipað um þetta frv. sem hið síðasta, jeg óska helst að það verði samþ. óbreytt. Jeg vil því beina þeirri ósk til fjhn., að hún taki aftur sína till. Hún hefir hvort sem er enga þýðingu, því að eins og jeg tók fram við 3. umr. málsins, þá er það einungis formsatriði, hvort skatturinn rennur í sjerstakan sjóð eða ekki. Þess vegna vildi jeg að fjhn. tæki hana aftur; það ber of lítið á milli til þess að frv. fari að flækjast á milli deilda fyrir það. Jeg get ekki heldur fallist á brtt. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Fyrri liður hennar getur ekki staðist af reikningslegum ástæðum, og hinn síðari fer fram á svo geysimikla lækkun á skattinum, að jeg get alls ekki aðhylst hana. Jeg verð og að mótmæla því, að skattur sá, sem hjer er farið fram á, sje hinn hæsti sem þekkist. Nýlega er framkomið í Danmörku frv., sem gerir ráð fyrir miklu hærri skatti en þetta. Danir gera ráð fyrir, að skattur þessi nemi 7,6 miljónum á ári. Brtt. 1. þm. Árn. (E. E.) finst mjer einnig mjög órjettlát. Það er engin meining í því, að bændur uppi í Mosfellssveit sjeu undanþegnir skattinum, ef hann gildir hjer rjett hjá. Og ef þetta yrði samþykt, mundi afleiðingin verða sú, að bændur í Mosfellssveit mundu að nafninu til verða eigendur allra bifreiða hjer, og enginn skattur koma í ríkissjóð. Og það er eingöngu fyrir hrossakaup, að háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) getur verið með þannig lagaðri till.