11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

28. mál, bifreiðaskattur

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg stend hjer upp í tilefni af brtt. 1. þm. Árn. (E. E.). Mjer skilst, að í henni felist það, að þær bifreiðar, sem notaðar eru til þess að flytja vörur og fólk fyrir sveitabændur, sjeu undanþegnar skattinum. Jeg, eins og líka allir í fjhn., hefi alls ekki getað gengið inn á þetta. Með þessu er hægt að teygja skattfrelsið svo langt, að ef til vill væri ómögulegt að ná skattinum inn, því að margir bifreiðaeigendur munu nota bifreiðar sínar í þarfir bænda að einhverju leyti. Háttv. þm. (E. E.) var með samanburð á hjálp ríkissjóðs til samgöngubóta handa sveitabændum og til þeirra, sem í kaupstöðum búa. En það er ekki sambærilegt. Þó að einstök hjeruð hafi styrk til bátaferða, þá eru það oftast þau hjeruð, sem litlar samgöngur hafa á landi. Ef við bærum t. d. saman Vestfjörðu og svo Árness- og Rangárvallasýslu, þá væru það engin aukahlunnindi, þótt veittur væri styrkur til bátaferða á Vestfjörðum, því að í þessum sýslum, sem jeg nefndi, er á ári hverju varið stórfje úr ríkissjóði til vegagerða. En hvað er lagt til vega í Ísafjarðarsýslu eða á Vestfjörðum. Háttv. þm. (E. E.) þarf ekki að kvarta fyrir hönd Árnesinga yfir þessum skatti. Þar eru ekki nema 3–5 flutningabifreiðar, sem bændur eiga, og þá yrði skatturinn ekki nema um 300 kr. á sýslubúa, og er það ekki mikið á svona stórt hjerað. En annars á háttv. þm. (E. E.) ekki að einblína svona á hag kjördæmis síns, heldur sem víðsýnn þingmaður að hugsa um hag alls landsins og fara þar að dæmi háttv. samþm. síns (Þorl. G.), Sem sagt, jeg verð eindregið að mæla á móti þessari brtt., því að eftir henni verður mjög vafasamt, hverjir bifreiðaskattinn eiga að greiða og hverjir ekki.