11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

28. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Jeg verð að segja það, að mjer þykir mál þetta ekki orðið svo mikilsvert, því að svo er búið að klípa utan af skattinum, að óvera ein er eftir. Jeg skal ekki tefja tímann með því að tala lengi um slíka smámuni. En af því jeg tel skattinn sjálfsagðan og rjettlátan, verð jeg að svara nokkrum orðum því, sem móti honum hefir verið haft, og vona jeg, að málæði mitt verði ekki verra en annara háttv. þm.

Hæstv. fjrh. (M. G.) fór fram á, að jeg tæki till. á þskj. 552 aftur. Jeg hefi ekki haft tækifæri til þess að bera þetta undir nefndina, og get því ekki tekið till. aftur upp á eindæmi mitt, og jeg vil það ekki, því að jeg álít till. til bóta. Hv. deild er í lófa lagið að fella till., ef hún álítur það rjett, og skal jeg ekki fjargviðrast yfir því.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) lýsti átakanlega erfiðleikum bifreiðaeigenda, og nefndi þar sem dæmi Álafossferðina. En þó að bifreiðaeigendur hafi ef til vill haft skaða af þeirri ferð, held jeg að landssjóður eða sá, sem á að annast viðhald veganna, hafi beðið meira tjón.

Þá átaldi háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) það, að jeg bygði í framsöguræðu minni á umsögn stjórnarinnar um skattinn í Danmörku. Jeg hafði ekki aðrar heimildir og þótti ekki rjett að rengja stjórnina. Mjer verður því ekki um kent, þó að sú skýrsla hafi verið eitthvað villandi, en jeg efast um, að svo hafi verið.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) vildi aðeins láta leggja slitlag á þá vegi, sem bílar gengju um. En hver veit, hvaða vegir það eru? Jeg veit ekki betur en að bílar fari um alt, þar sem þeir komast, og getur enginn sagt um það, hvert þeir geta komist.

Þá vík jeg að háttv. samþingismanni míuum (E. E.). Jeg skal ekki fara í neinar deilur við hann, en mig furðar, að hann skyldi ekki koma fyr með till. sína. Jeg veit, að hún er borin fram af góðum hug til kjósenda okkar, en jeg tel mig fyrst og fremst þingmann alls landsins, og lít á það, hvað því er fyrir bestu. Þessi skattur er rjettlátur og er í þágu allra landsmanna, og þá einnig kjósenda minna, og þó að einstakir menn meðal þeirra þykist verða hart úti, verður að gæta þess, að ekki má taka meira tillit til þeirra en hinna, og eins eiga hlunnindi þau, sem þeir hafa af bifreiðunum fram yfir hina, að vega á móti skattinum. Dalabúar, sem helst þyrftu á bílunum að halda, geta lítið notið þeirra, nema um hásumarið. Á vetrum þurfa þeir að fara með vagna eða sleða, og jafnvel sleða undir vagninum. Þessir menn nytu því lítils góðs af þessari ívilnun.

Jeg verð að halda fast við það, að skatturinn sje rjettlátur. Jeg tel það ekkert of mikið, þó að bíll, sem fer langar leiðir og slítur mikið vegum, verði að greiða 80 kr. í skatt um árið, því að það er vitanlegt, að þeir skemma vegi fyrir meira en 80 kr. Og þó að t. d. 30 menn í einni sveit í sýslunni hafi sjerstaklega gott af þessum bílaferðum, þá er ekki rjett að láta þá sitja í fyrirrúmi allra hinna. Þó að till. háttv. samþm. míns (E. E.) sje af góðum hvötum runnin, get jeg ekki greitt henni atkv., því að jeg álít hana ekki fyllilega rjettláta, og jeg verð að taka meira tillit til rjettlætisins heldur en til einstakra kjósenda minna. Þó þessi till. háttv. samþm. míns (E. E.) sje af góðum toga spunnin, þarf hv. deild ekki að taka tillit til þess eins, heldur ber henni að fara eftir þeim, sem vitið hafa meira í hvert sinni.