11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

28. mál, bifreiðaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) spurði, hvernig reikna ætti út þennan skatt. Það á að telja hann eftir hestorku hverrar bifreiðar, eins og hún er skrásett hjá lögreglustjóra, og svo er það gert annarsstaðar. (J. Þ.: Nei, það er ekki rjett!). Það verður þó að fara eftir þeirri „formúlu“, sem verksmiðjurnar, eða þeir, sem bifreiðarnar smíða, leggja til grundvallar fyrir hestorkufjöldanum.

Þegar sami háttv. þm. (Jak. M.) segir, að það komi ekkert málinu við, þó að jeg hafi upplýst um það, að 9 sinnum hærri skattur væri á samskonar bifreiðum í Danmörku heldur en hann ætlast til að sje hjer, þá veit jeg ekki hvaða þýðingu það hefir að mæla með rökum með eða móti máli. Þetta, að kalla skattinn settan á framfarirnar, er bara slagorð, sem ekki er á neinum rökum bygt. Jeg skal játa, að bifreiðarnar mega teljast til framfara, en eigi eingöngu að leggja skatt á afturfarirnar, býst jeg ekki við að hann nemi miklu. Það er fjarstæða, að þessi skattur geri það að verkum, að menn sjái sjer ekki fært að halda úti bifreiðum. Mjer datt ekki í hug að rengja það, sem einhver maður sagði háttv. sama þm. (Jak. M.) um bifreiðaslitið á leiðinni til Álafoss um daginn, en jeg sneri vopninu í höndum háttv. þingmanns með því að sýna honum fram á, að þetta mælti með skattinum en ekki móti; bregst hann reiður við, og gildir mig það einu.

Jeg ætla ekki að deila um það, hvað slíti vegunum mest, en hins vegar vísa jeg til orða háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) um það mál. Hann segir, að það sjeu bifreiðarnar, sem mest slíti vegunum og verst fari með þá, og hann er þó sá maðurinn, sem getur úr flokki talað; hann hefir verið landsverkfræðingur og hefir vit á slíkum málum sem þessu.

Annars get jeg ekki látið vera að benda á það, í sambandi við brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), að mjer finst það undarlegt, að þm. komi með brtt. við frv., sem hann ætlar þó að vera á móti.

Viðvíkjandi því, sem hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) beindi til mín, finn jeg enga ástæðu til þess að verða við ósk hans og taka málið af dagskrá. Jeg hefi sjeð þetta nýja frv., sem Danir hafa til meðferðar, og af því sje jeg, að þetta okkar frv. er alls ekki ósanngjarnt. í Danmörku er skatturinn hærri á flutningabifreiðum heldur en fólksbifreiðum.

Að öllu athuguðu virðist því, að skatturinn ætti að vera hærri hjer, en ekki lægri, og það vegna staðháttanna; landið er 3 sinnum stærra, en þjóðin mörgum sinnum mannfærri. Hvernig getum við þá ætlast til að borga minna.

Að endingu vil jeg bæta því við, að það sat illa á háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) að vera að brýna mig á þessu máli, eftir að jeg var búinn að reka hann í vörðurnar í öðru máli fyrir skemstu. Hann beið þá fullkominn ósigur, og eins mun fara nú, þrátt fyrir munnskálp þm. (M. J.: Það er nú hægast að fara með slíkar fullyrðingar, þegar búið er að binda fyrir munninn á manni). Hann getur sjálfum sjer um kent; jeg bauð honum að falla frá orðinu, en það vildi hann ekki.