22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Magnús Guðmundsson:

Háttv. frsm. nefndarinnar (M. J.) ljet í ljósi, að hann áliti, að rjett hefði verið af fyrv. stjórn að hleypa þessu máli í strand 1921. Hann álítur þá með öðrum orðum, að það hafi verið fært að láta sjávarútveginn greiða hinn háa toll á erfiðasta árinu, sem yfir hann hefir komið, en nú sje það ekki fært, þótt miklu betur láti í ári. Og þar við bætist svo það, að á árinu 1921 þurfti ekkert vín að kaupa, en nú þurfum við þess. Mjer er það því hulin ráðgáta, hvernig háttv. þm. getur litið svona á, og hika ekki við að álíta, að þetta sje sagt að óathuguðu máli.

Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) heldur fast við þá tilgátu sína, að ekki hafi verið lagt nógu fast að Dönum að gera okkar mál að sínu. Byggir hann þetta á hugboði sínu og engu öðru. Jeg er þegar búinn að sýna, að þessi tilgáta er með öllu ástæðulaus, og benti á þau rök, að viðskiftamálanefndin hefir rannsakað skjölin, sem um þetta fjalla, og hefir ekki fundið neitt í þeim, sem gefi tilefni til að ámæla fyrv. stjórn fyrir neitt í þessu máli. Legg jeg óhræddur undir dóm háttv. þdm., hvor okkar færir hjer fram betri rök.

Orð háttv. þm. um innflutningshöftin koma þessu máli ekkert við, og skal jeg því ekki virða þau svars.

Háttv. þm. sagði, að vín væri nú selt í öðru hverju húsi hjer í bænum. Jeg kalla háttv. þm. fróðan, ef hann veit rjett um þetta, og furða mig á reynslu hans í þessu efni. En án þess nú að vilja gera neitt lítið úr henni, þá verð jeg að halda því fram, að þetta fari ekki nærri lagi. Jeg veit ekki af neinum stöðum hjer á landi, sem selji vín, nema lyfjabúðunum. Eða vildi háttv. þm. ef til vill gefa upp svo sem eitt af þessum húsum. Hann hefir þó væntanlega kært einhvern af þessum vínsölum. Geti hann ekki sannað, að yfirvöldin hafi ekki sint slíkum kærum, þótt fram hafi komið, þá verða þessi orð hans að skoðast ómerk.

Að lokum skal jeg svo lýsa yfir því hvað Dani snertir, að þeir gerðu okkar málstað að sínum. Hvort sem því hefir verið lagt að þeim meira eða minna, þá er víst um það, að nógu mikið var lagt að þeim til þess — og það ætti að nægja þessum háttv. þm. (J. B.). Viðvíkjandi svari hans um brtt., þá skal jeg segja það, að það, sem jeg fann að frv. var aðeins formsatriði, og því ekki svo þýðingarmikið, og auk þess naumur tími fyrir hendi.