22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Þorláksson:

Jeg skal gefa háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) skýringu á því, við hvað jeg átti, er jeg sagði, að hann hefði farið með rangar tölur. Hann var að reikna út, hvað sá tollauki á íslenskum fiski myndi nema miklu, sem með þessu móti kæmi undir hámarkstoll. Notaði hann við þennan útreikning sinn verslunarskýrslurnar. Væri þetta og rjett, ef þessi tollauki lenti bara á þeim fiski sem fer beina leið til Spánar. En svo er ekki. Tollaukinn lendir á öllum íslenskum fiski, hvaða leið sem hann fer. Þetta verður því rangur mælikvarði, þótt hann sje tekinn eftir verslunarskýrslunum. Skekkjan liggur í því, að hjer eru teknar tölur og notaðar, sem tákna annað en það, sem verið er að tala um.

Eins og jeg hefi áður minst á, þá er hin talan líka röng, þar sem háttv. þm. gerir pesetann 72 aura virði í stað 108.

Jeg hlustaði með gaumgæfni á svör hv. frsm. (M. J.) og hæstv. forsrh. (S. E.), en fanst heldur lítið á þeim að græða. Hæstv. forsrh. sagði, að þessi bestu kjör myndu standa til boða að ári liðnu, en hann hafði ekki skjöl málsins við hendina og sagði þetta einungis sem sitt álit, að mjer virtist. Finst mjer það harla ófullnægjandi að hafa ekki við annað að styðjast í þessu efni en trú hæstv. forsrh., og væri æskilegt, ef hann gæti gert skýrari grein fyrir þessu.

Háttv. frsm. gerði betri skil, hann náði í gerðabók nefndarinnar, las upp skeyti til sendinefndarinnar á Spáni og svar hennar. Er það gott, svo langt sem það nær, en orðan skeytisins hjeðan er ekki heppileg, því það má skilja það á þann veg, að spurt sje um kjör þau, sem okkur bjóðist á yfirstandandi ári. Og er leitt að þurfa að byggja ályktun um svona mikilvægt mál á einu skeyti, sem ekki er svo ljóst orðað, að trygging sje fyrir, að viðtakandi hafi skilið það rjett.

Mín niðurstaða er þá sú, að háttv. viðskiftamálanefnd hafi varpað ábyrgðinni af sjer yfir á hæstv. stjórn og sendinefndina, og fái jeg ekki betri skilagrein, verð jeg að láta mjer nægja þessa, þótt ekki sje vel frá henni gengið. Það verður að gæta allrar varúðar, er um svo stórfelt hagsmunamál er að ræða, og auk þess eru kunn tildrög þess.

Eftir því, sem skýrt hefir verið frá á lokuðum fundum, stafar þessi uppsögn Spánverja af því, að þeir ætla sjer að endurskoða alla tolllöggjöf sína og hætta að semja upp á bestu kjör. Þetta tilboð um bestu kjör til handa okkur og Dönum er því undantekning, og þá ber að gæta allrar varúðar við, að tækifærið gangi ekki úr greipum okkar. Auk þess er annað, sem gerir að verkum, að jeg fyrir mitt leyti vil fara gætilega í þessu máli. En það er, að sagt er að borist hafi, einmitt nú upp á síðkastið, skeyti frá sendimönnunum, sem veki fullan grun um, að við gætum mist tilboðið um bestu kjör. Þess vegna vil jeg fara varlega, en jeg get ekki gert meira en að spyrja hæstv. stjórn og háttv. nefnd, og verð að láta mjer lynda svör þeirra. En mjer þótti hæstv. forsrh. (S. E.) taka laust á málinu og ekki gefa fullnægjandi skýrslu.

(Forsrh.: Jeg hefi ekki gögn málsins hjá mjer). Getur það beðið til næstu umr., ef skjöl málsins eru ekki fyrir hendi nú.

Þá vil jeg minnast á eitt atriði í ræðu háttv. frsm. (M. J.), sem mjer þótti undarlegt. Mjer fanst koma fram hjá honum, eins og líka í greinargerðinni, að það hefði verið rjett að sigla málinu í strand á fyrra stigi þess. Þetta virðist benda í þá átt, að háttv. frsm. hafi ekki gert sjer ljóst, hver afleiðingin af því mundi verða — að við mistum af þeim kjörum, sem standa okkur nú til boða. Jeg veit, að háttv. frsm. skilur það, er hann íhugar málið betur, að það er ekki hægt að slíta öllum samningum og halda jafnframt þeim tilboðum, sem hinn samningsaðilinn kann að hafa gert.

Það hefði því verið óverjandi af fyrv. stjórn að sigla málinu í strand — eins og líka nú af háttv. nefnd — af þeirri einni ástæðu, að þá hefðum við orðið af bestu kjörum.