24.04.1922
Neðri deild: 54. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Jónsson):

Jeg hefi ekki hugsað mjer að vekja langar umræður nú; málið er þegar talsvert rætt við 2. umr., en jeg vildi þó leyfa mjer að skýra nokkru nánar 2 atriði, sem þá komu fram.

Það er þá í fyrsta lagi sú spurning, sem háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) lagði fyrir okkur nefndarmennina, hvort bestu kjör væru trygð á þinginu 1923, ef frv. nefndarinnar yrði samþykt óbreytt nú.

Jeg bjóst ekki við, að það mundi falla í mitt hlutskifti að svara þessu, því að hæstv. forsrh. (S. E.) ætlaði að safna öllum þeim gögnum sem hníga að málinu, en þar sem hann er nú veikur, vil jeg fyrir nefndarinnar hönd svara þessari spurningu hv. þm. (J. Þ.) með þeim gögnum, sem eru fyrir hendi.

Eins og háttv. þingmönnum mun kunnugt, urðu allir þm. sammála um það á lokuðum fundi, að allir samningar við spönsku stjórnina yrðu þannig úr garði gerðir, að okkur væru trygð bestu tollkjör æfinlega. Þau skeyti, sem að tilhlutun stjórnarinnar og viðskiftamálanefndar hafa verið send sendinefnd vorri á Spáni, hafa því öll haft klausur um þetta. Það má einnig sjá, að sendimennirnir hafa skilið þetta, því að skeyti þeirra bera það með sjer. T. d. eitt þeirra, sem byrjar svo:

„Til þess að setja ekki bestu kjör í hættu, verður að okkar áliti að nægja . “ o. s. frv.

Annað skeyti sendi stjórnin sendimönnunum, þar sem þeim var falið að reyna að halda status qvo, en hafa þó bestu kjör trygð.

Meðan sendinefndin var að leita fyrir sjer um svör Spánarstjórnar viðvíkjandi frestun bannlaganna, drógust svör hennar hingað nokkuð lengi. Þess vegna kom hjer upp talsverður kvíði fyrir því, að afturkippur væri kominn í spönsku stjórnina og drægjust svör stjórnarinnar því svo lengi. En það reyndist þó, að sá kvíði var ástæðulaus og drátturinn stafaði af miklum önnum og umsvifum, sem Spánarstjórn hafði fyrir Genúafundinn. En á þessum tíma sendi þó stjórnarráðið íslenska skeyti, sem jeg hefi því miður ekki í afriti, en þar var meðal annars spurt um, hvort ekki væri víst, að við ættum kost á bestu kjörum. Sem svar við því kom skeyti 17. apríl, og hljóðar það svo:

„Stjórnin loks fullnaðarsvar dag, undirstrikar bestu kjör fáist ekki gegn neinu öðru en afnámi laganna, neitar suspension. Segist þó ekki leggjast móti, að breytingin sje gerð sem suspension á þessu þingi, ef vægra þyki, og lögin síðan afnumin 1923. Fyrirskipanir óskast um, hvað við nú skulum gera“.

Það sjest ljóslega á þessu skeyti, að sendinefndin telur að þetta form muni þýða það sama og að lögin sjeu afnumin nú, því að ef svo væri ekki, væru samningarnir komnir inn á nýja braut, en það sjest hvergi.

Nú síma þeir aftur, af því að skeyti þeirra mátti skilja svo, að þetta þing yrði að skuldbinda sig til þess að afnema lögin 1923:

„Dagskeyti okkar ber vitanlega ekki skoða svo sem krafist sje nú skuldbindingar afnema lögin þinginu 1923“.

Það sjest því, að alt hnígur að því, að ef þingið 1923 samþykkir breytinguna, sje alt gott og blessað.

Á sama tíma sendu þeir enn eitt skeyti, sem sýnir, að nóta spönsku stjórnarinnar hefir verið skriflegt loforð og því bindandi:

„Spanska stjórnin lýsir því yfir í nótu einni, að tilslökun um eins árs suspension sje gerð til að mæta Íslendingum. Okkur virðist, að þar sem frestur er fenginn til fullnaðarákvörðunar um breytingu til 1923, sje fengið svigrúm til ráðstafana, sem stjórn og þing kunna að telja hentugar á undan þeirri ákvörðun. Þetta aðeins bending til athugunar“.

Rjett á eftir þessu skeyti kom annað, sem var svar við fyrirspurn stjórnarinnar um það, hvort bestu kjör væru ekki trygð:

„Bestu kjör trygð. Teljum óþarft tilkynna spönsku stjórninni nokkuð svo komnu. Förum annað kvöld, nema gagnstæðar fyrirskipanir komi“.

Áður en þetta skeyti kom, óskaði viðskiftamálanefnd að senda skeyti, sem tæki af öll tvímæli í þessu máli, og óskaði jafnframt eftir skýlausu svari sendinefndarinnar. Var því sent skeyti, sem lesið var upp við 2. umr., en mjer þykir þó hlýða að lesa það upp aftur nú. Það er þá svo:

„Viðskiftanefnd hefir beðið stjórnina spyrja yður. Ber ekki skilja símskeyti yðar svo, að það sje fyllilega trygt að við höldum bestu tollkjörum áfram, ef við nú samþykkjum árssuspension og ef þing 1923 samþykkir breytingu á bannlögunum upp í 21%. Hraðsvar“.

Sendinefndin svaraði þessu skeyti um hæl:

„Já við spurningu nefndarinnar“.

Öll þessi skeyti eru undirskrifuð af öllum sendimönnunum.

Mjer virðist því, er þessi skeyti eru athuguð, að það sje nokkurn veginn augljóst, að bestu kjör sjeu jafntrygg 1923 eins og nú, því að allir frestir, sem fengist hafa í þessu máli, hafa verið þannig, að bestu kjör hafa verið okkur trygð, ekki einungis meðan á frestinum hefir staðið, heldur og eftir að hann var útrunninn. Það væri því nýtt í málinu, ef þessi trygging stæði aðeins meðan suspensionin varaði, en ekki á eftir. Jeg tel það ennfremur vantraust á sendimönnunum, ef þeir hefðu ekki vitað og tekið fram, hve gagnslaus fresturinn væri, ef ekki væri full trygging fyrir bestu tollkjörum, ef við samþyktum kröfur Spánverja óbreyttar 1923.

Jeg veit nú ekki fyllilega, hvernig á að skýra þessa árssuspension að formi til, en jeg hefi þá skoðun, að hún þýði það, að framlengdur sje sá „modus vivendi“, sem verið hefir milli ríkjanna. Afstaða okkar er lík afstöðu Norðmanna eins og hún hefir verið og er. Þar er frestað að ákveða um sjálft principspursmálið, en haldið áfram modum vivendi. En næsta þing getur svo tekið þann kostinn, sem það vill.

Annað það, sem jeg vildi svara, var það, að hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) spurði um við 2. umr., hversvegna væri mælt svo fyrir í þessu frv. nefndarinnar, að fá skyldi konunglegan úrskurð um, að bannlögunum skyldi frestað, í stað þess að þingið gæfi stjórninni heimild til að semja reglugerð um það.

Ástæðan fyrir þessu mun vera sú, að málið var lagt þannig fyrir spönsku stjórnina í fyrstu, eins og sjá má á uppkasti, sem samið var á dönsku og átti að vera nokkurskonar grundvöllur fyrir samningana. Sömuleiðis í því franska skjali, sem legationsráð Bull samdi og lagt var fyrir spönsku stjórnina. Í báðum þessum skjölum er það tekið fram, að konunglegur úrskurður skuli fresta framkvæmd bannlaganna. Hitt er náttúrlega annað mál, hvort þetta hafi verið nauðsynlegt í fyrstu, en það var gert í samráði við menn, sem vanir eru slíkum samningum og hafa gott vit á þeim, þá kammerherra Bernhöft sendiherra og legationsráð Bull. Mjer finst því rjett að halda því formi, sem haft var fyrst þegar málið var borið fram fyrir spönsku stjórnina.