25.04.1922
Efri deild: 51. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Það er algerlega rjett hjá háttv. frsm. (H. St.), að það er þýðingarlaust að tala mikið um þetta mál. Afstaðan er þannig, að vjer erum fyrirfram neyddir til að ganga að þessum kostum. Vjer erum blátt áfram kúgaðir til þess, og eru þá fæst orð best um það. Á það vildi jeg þó benda, að mjer finst vel sæma, að eigi sje gengið lengra í máli þessu en brýn nauðsyn ber til. Tel jeg því þá breytingu til bóta að orðið hefir á frv. frá því, er stjórnin lagði það fram. En nú mun ekki vænlegt, að málinu verði kipt í betra horf, en þá samt líka rjett að ganga ekki lengra en þörf er á. Jeg get kannast við, að þetta er viðskiftamál.

Þó þetta verði nú svona að vera, þá langar mig þó til að gera eina fyrirspurn til hæstv. stjórnar um eitt atriði. Að vísu getur það hafa verið skýrt, þó það hafi farið fram hjá mjer.

Hvernig er samningum nú háttað milli Danmerkur og Spánverja? Gera þeir samning eða gera þeir ekki samning? Hver er afstaða Dana til þessa samnings okkar? — Jeg tel svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar fyr en jeg hefi fengið svar við þessari spurningu. En mig langar til að vita vissu mína um það, hvort við erum skildir frá Dönum í þessum samningi.