25.04.1922
Efri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Halldór Steinsson):

Þetta er aðeins örstutt athugasemd út af fyrirspurn háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.). Mjer kom hún satt að segja nokkuð á óvart núna. Get jeg ekki sjeð, að hún hafi minstu þýðingu. Hvernig svo sem Danir kunna að haga sínum málum við Spánverja, þá höfum vjer þó trygt bestu tollkjör þetta ár. Erum vjer því ekkert bundnir við hvað Danmörk gerir í þessu efni þann tíma. Enda hefðum vjer orðið að sætta oss við þetta, hvaða leið sem Danir hafa farið eða fara.

Nefndinni er alls ekki kunnugt, hvað Danir hugsa sjer með samninga sína við Spánverja, en eftir því að dæma, hvað þeir hafa staðið drengilega með oss í samningum vorum, er ekki ólíklegt, að þeir lagi sig eftir vilja vorum og semji aðeins til eins árs, ef íslenska stjórnin færi þess á leit við dönsku stjórnina. Annars mun það litla þýðingu hafa fyrir úrslit málsins.