06.04.1922
Efri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Sigurður Jónsson:

Háttv. sessunautur minn fór mörgum orðum um frv. þetta og skýrði það vel frá sínu sjónarmiði. Annars hefir það ekki verið venja hjer í deildinni að vera margorður um frv. við 1. umr.

Mig langar til að fara hjer nokkrum orðum um eitt sjerstakt atriði í ræðu hv. flm. (S. H. K.), sem jeg get ekki látið ómótmælt.

Jeg skal geta þess áður, að jeg greiddi atkvæði mitt með því að leyfa þessi afbrigði frá þingsköpum aðeins vegna þess, að hæstv. forseti var því heldur meðmæltur (Forseti: Jeg þakka), og þá sjerstaklega vegna þess, að þessi maður situr í forsetastóli. (Forseti: Jeg þakka).

Þá kem jeg að þessu atriði, sem jeg vildi mótmæla.

Háttv. flm. talaði mikið um þá miklu atvinnu, sem menn færu á mis við hjá Norðmönnum, vegna þess að þeir verkuðu ekki síld sína í landi. — Jeg fyrir mitt leyti get ekki litið svo stórum augum á þetta atvinnutjón landsmanna, og svo mun vafalaust vera um fleiri en mig. Bæði er það að um þennan tíma árs, sem um slíka vinnu er að ræða, er meira en nóg um aðra vinnu og auk þess er mjer kunnugt um, að þeir menn, sem notið hafa þessarar vinnu hjá útlendum síldveiðimönnum, hafa flestir borið lítið úr býtum, að minsta kosti mikið minna en þeir gátu fengið í sveitum, og það nærlendis. Og að mínu viti er ekki útlit fyrir, að þetta breytist. Þetta atriði verð jeg því að telja frv. heldur til mótmæla en meðmæla (S. H. K.: Jeg hefi ekkert um þetta sagt). Þá kem jeg að niðurlagsorðum háttv. ræðumanns. Það eru sjerstaklega þau, sem jeg get eigi þolað.

Hann talaði um, að það væri metingur á milli atvinnuvega landsins. Jeg kannast eigi við, að það hafi átt sjer stað á hinu háa Alþingi. Hafa máske á fyrri þingum fallið nokkur kesknisorð í þá átt, en á síðari þingum alls ekki. Eða var nokkur metingur milli atvinnuveganna á síðasta þingi, er rætt var um lán til botnvörpunganna? Nei, því fór fjarri. Ennfremur verð jeg að telja það allsendis ósæmilegt af háttv. þm. að tala um einhvern atvinnuveg sem sníkjudýr á hinum. Jeg leyfi mjer að skora á hv. ræðumann að kveða upp úr með, hvern atvinnuveg hann átti við með þeim orðum. Á jeg bágt með að trúa því, að hann geti sannfært mig eða aðra deildarmenn um að þau orð sjeu maklega mælt.

Ennfremur talaði háttv. ræðumaður eitthvað um það, að síldarútvegurinn væri þroskavænlegasti atvinnuvegur landsins. (S. H. K.: Jeg sagði þroskavænlegur.), og verð jeg að lýsa yfir því, að jeg tel dóm hans ómaklegan bæði nú, og býst við að hann reynist það einnig síðar meir.