06.04.1922
Efri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Halldór Steinsson:

Háttv. flm. (S. H. K) tók það sárt, að jeg skyldi telja hann málsvara Norðmanna hjer, og hann tók að afsaka sig á allar lundir. Mjer kom ekki til hugar, að hann hefði verið látinn flytja frv. af einhverjum öðrum, en hins er ekki að dyljast, að gagnið af því er aðallega Norðmannamegin.

Það er rjett, að ef hagnaður er aðeins 3 kr. á tunnu, þá tekur ríkið alt, en ef hagnurinn er 30–40 kr. á tunnu, þá tekur ríkið einnig aðeins 3 kr. Og útgerðarmenn munar ekkert um að greiða þessa upphæð, ef gróði er.

Háttv. þm. (S. H. K.) sagði, að mótmælin gleddu sig, vegna þess, að í þeim væru engin rök. Jeg bið háttv. þdm. að minnast þess, hvað fram hefir verið flutt gegn frv., og bera það síðan saman við t. d. greinargerð frv. og ræðu þessa háttv. þm. Hann hefir aðeins slegið því fram, að ef tollurinn yrði lægri, þá mundu Norðmenn flykkjast inn í landið. Þetta eru engin rök. Það væri öðru máli að gegna, ef háttv. þm. gæti sannað, að þessar 83 þúsund tunnur, sem Norðmenn veiddu hjer við land, hefðu komið inn í landið, ef tollurinn hefði verið lægri, en jeg býst við, að honum reynist það erfitt.