23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Guðmundsson:

Háttv. 3. þm. Reykv. (J.Þ.) kvartaði um það, að enginn liður væri útgjaldamegin í frv. þessu á móti bifreiðaskattinum; en þetta er ekki rjett. Jeg veit vel, að þessum skatti á að verja á sjerstakan hátt, og upphæðin er fólgin gjaldamegin í tveimur liðum, viðhaldi flutningabrauta og viðhaldi þjóðvega. Þá fer skatturinn til þess að bæta þær skemdir, er bifreiðarnar valda. Er það svo að skilja, að þessar upphæðir mundu hafa orðið miklu lægri í fjárl., ef skatturinn hefði ekki verið. Sami háttv. þm. (J.Þ.) vildi láta kostnað við tóbaksverslun ríkisins koma gjaldamegin. Um þann kostnað er nú erfitt að gera áætlun enn, enda var það tilætlun Alþingis í fyrra, að Landsverslunin færi með þá verslun meðan hún stæði. En Landsverslunin hefir aldrei verið tekin upp í fjárlögin, eins og háttv. þdm. er kunnugt. Um vínverslunina er því að svara, að þar á hvorki að vera um tap eða gróða að ræða, svo að það mundi þá aðeins verða jafnhá áætlunarupphæð tekna- og gjaldamegin.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) var að svara því, sem jeg mintist á hann í gær í sambandi við sendiherrann. En gallinn var aðeins sá, að hann tilfærði ekki rjett þau orð, sem hann síðan svaraði. Það vill nú svo vel til, að jeg hefi hjer fyrir mjer ræðu þá, sem skrifarinn ritaði eftir mjer, og þar stendur þetta:

„Annars gladdi það mig, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) er kominn á þá skoðun, að þennan lið megi ekki lækka eða fella niður. Hann hefir þó, eftir því sem mig minnir, verið á móti þessu máli áður“. (Sv.Ó.: Jeg kannast ekki við, að þetta sje rjett eftir haft). Kannast þm. ekki við, að skrifarinn hafi ritað rjett? (Sv.Ó.: Nei). En jeg kannast við, að jeg notaði þessi orð og það hygg jeg að verði þyngra á metunum en misheyrnir háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.). Hjer er líka alt rjett hermt. Háttv. þm. (Sv.Ó.) greiddi atkv. gegn því að stofna þetta embætti, og nú hefir hann lýst yfir því, að hann vilji ekki láta það niður falla. Þetta gladdi mig.

Sami háttv. þm. (Sv.Ó.) hjelt mig vera fullbjartsýnan á það, hve vel oss muni ganga að komast úr skuldunum. Jeg fór þar eftir þeirri niðurstöðu, sem háttv. viðskiftanefnd hefir komist að. Hún telur, að síðastliðið ár hafi skuldir landsins við útlönd minkað um að minsta kosti 10 milj. kr. Þetta er nú að vísu hærra en jeg hafði haldið, en jeg set ekki hugboð mitt hærra en þær tölur og niðurstöður, sem þær stofnanir fá út, er fást eiga við málin og hafa þau gögn í höndum, sem til eru.

Háttv. 2. þm. Húnv. (Þór.J.) þarf jeg varla að svara. Hann hjelt að jeg vildi hafa sendiherra til snúninga fyrir landsstjórnina af því, að jeg hefði verið í stjórn. Sú ástæða er nú orðin lítils virði, úr því að jeg er farinn úr stjórninni. Hann virðist líka halda, að ferðir sendiherrans til Noregs og Svíþjóðar hefðu verið erindisleysa. Jeg get sagt honum, að svo var ekki. Hv. þm. vita, að vjer höfum haft deilumál við stjórnir beggja þeirra þjóða, og veitti ekki af starfi hans til að útkljá þau.

Þá kem jeg að háttv. þm. Ak. (M.K.). Mjer þykir leitt, að hann hefir ekki veitt því eftirtekt, að bæði nú og í gildandi fjárlögum er áætlun tekna og gjalda gerð öðruvísi en siður var áður. Jeg lýsti því rækilega í fyrra, að reyna ætti að hafa áætlunina sem allra næst sanni, og jeg þóttist líka gera það, eftir því sem í mínu valdi stóð. Það yfirlit sem jeg gaf hjer í þingbyrjun var miðað við áætlun sem gerð var 1919 og með gamla laginu. Jeg skal ábyrgjast það, að yfirlit yfir árið 1922 verður ólíkt að þessu leyti. Jeg þori vitanlega ekki að segja, að hvergi muni fara fram úr áætlun, en jeg er samt viss um, að sumir gjaldaliðirnir verða lægri en áætlunin.1)

Það vantar mikið aftan af ræðunni hjá skrifurunum.

M. G.