23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

1. mál, fjárlög 1923

Sigurður Stefánsson:

Jeg ætla ekki að svara háttv. frsm. (B.J.) mikið, því að orð hans voru mest útúrsnúningar á ummælum mínum. Hann ljest skilja orð mín svo, að jeg hyggist bráðlega við heimsslitum sbr. það fornkveðna: „Sól fer sortna. sígr fold í mar. Hverfa af himni heiðar stjörnur“ o. s. frv., en jeg held, að fáir hafi skilið mín orð svo. Þá hneykslaðist hann á því, að jeg bygði reynslu mína á liðnum og yfirstandandi tíma. Held jeg, að það sje eins hyggilegt eins og að sjá framtíðina í altof miklum hillingum.

Viðvíkjandi gengismuninum er það að segja, að jeg er afarvondaufur um það, að hann verði horfinn þegar næsta afborgun og vaxtagreiðsla fer fram. Er þetta mjög stórvægilegt atriði, sem verður að taka rækilega til greina.

Viðvíkjandi símunum vil jeg taka það fram, að það hefir enn eingöngu verið talað um Króksfjarðarnessímann. En það sama á við síma í mínu kjördæmi frá Hesteyri til Aðalvíkur. Hefir honum verið lofað næstum því jafnoft og eigi að veita til Króksfjarðarsímans, þá neyðist jeg til þess að gera sömu kröfu fyrir mitt kjördæmi. En jeg vildi alt til vinna, að fjárlögin yrðu tekjuhallalaus, og vildi þar ekkert láta koma til greina afstöðu mína til stjórnarinnar, en efni stjórnin ekki loforð sitt um það að taka til yfirvegunar breytingar á embættaskipun landsins, þá kemur annað hljóð í strokkinn hjá Vigurklerki. En jeg vona það, að stjórnin efni þetta loforð sitt, enda þótt jeg sje hræddur um, að þar verði ekki færri ljón á veginum heldur en verið hefir, er reynt var til að afnema þessi 2 óþörfu embætti.