24.04.1922
Neðri deild: 54. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Magnús Guðmundsson:

Jeg er sammála hv. þm. Ak. (M. K.) um, að tilgangslaust sje að ræða þetta mál mikið nú. Það mun vera þannig í pottinn búið. En jeg get þó ekki stilt mig um að benda á það, að það er dálítið undarlegt, hvernig hv. fjhn. hefir snúist í þessu máli frá því á síðasta þingi. Því síldarverðið hefir ekki fallið svo mikið frá í fyrra, að það eitt geti rjettlætt hringl nefndarinnar.

Það mun láta nærri, að ríkissjóður tapi 150 þús. krónum á ári, ef þetta frv. nær fram að ganga. Það getur vel verið, að tapið verði meira, en ef gert er ráð fyrir, að 100 þúsund tunnur verði fluttar út árlega, þá verður það þetta. Mjer þykir það mjög leitt, að svona tekjulækkun skuli koma fram eftir að búið er að samþykkja fjárlögin. Þau voru nú samþykt með 100 þúsund króna tekjuhalla, en ef þetta frv. verður samþykt, þá kemst tekjuhallinn að líkindum upp í 300 þúsund.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að þessi skattur hefði verið miðaður við hæsta stríðsverð, en hann hlýtur að sjá, að það er ekki rjett, ef hann athugar það nánar, því að þessi lög voru sett í fyrra, og ekki var þá 100 króna verð á síldartunnunni. Jeg býst við, að umræður um þetta mál sjeu þýðingarlitlar nú, og því get jeg slept að tala um gagnsemi síldarútvegsins og hver áhrif hann hefir á landbúnaðinn með því að draga frá honum vinnukraftinn. Frv. sje jeg mjer alls ekki fært að samþykkja fyrir mitt leyti.