20.02.1922
Neðri deild: 5. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (1087)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Bjarni Jónsson:

Hv. flm. (E. Þ.) hafði mörg orð um það, hve hagur ríkissjóðs væri illur. Ef jeg hefi skilið hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) rjett, þá er hann lagði fram fjárlagafrv., þá er hagur ríkisins að vísu ekki góður, en þó miklu betri en þessi hv. þm. (E. Þ.) vildi vera láta. Hann kvað lánstraust landsins þrotið, en hæstv. fjrh. hjelt hinu gagnstæða fram, því að hann sýndi fram á, að þau lánskjör, sem vjer hefðum fengið, væru engu verri en annara vel stæðra ríkja. Tekjuhalli hefir oft verið ráðgerður í fjárlögum, en þó ekki orðið fyr en á síðustu árum. (Fjrh.: Ekki það?). Nei. (Fjrh.: Hvað kallar þm. síðustu ár?). Jeg nefndi ekki síðustu og verstu ár, en annars leiðrjettir hæstv. ráðherra (M. G.), ef mjer skýst.

En annars held jeg, að hv. þm. (E. Þ.) mikli þetta fyrir sjer; hallinn síðasta ár er í mesta lagi ein miljón. Og ef svo er nú, að um verulegar kröggur ríkisins sje að ræða, þá efa jeg mjög, að það sje nokkur bót, þótt hætt sje að prenta þingtíðindin.

Háttv. flm. (E. Þ.) kvað þörf á því að spara bæði ríkisfje og einstaklingsfje, og er það sannmæli. En ef, eins og frv. þetta fer fram á, er sparað ríkisfje það, er ríkissjóður geldur starfsmönnum fyrir vinnu sína, þá er ekki þar með sparað fje þess manns, sem fyrir vinnutjóninu verður. Jeg tel það harla vafasamt, að ríkinu sje hagur að því, að svifta menn atvinnu. Það kemur á herðar ríkisins að lokum að halda lífinu í þjóðinni, og jeg sje ekki til þess annað ráð vænlegra en að ríkið stuðli sem mest að því, að allir geti haft atvinnu. En þetta frv. gengur í gagnstæða átt. Það fer ekki fram á að veita mönnum atvinnu, heldur hitt, að svifta þá menn atvinnu, er áður hafa haft hana. — Ekki getur það heldur talist mikið bjargráð úr fjárkreppu landsins að spara mjög fje innanlands, það, sem gengur manna í millum. Þjóðarhagurinn út á við stendur fyrir því jafnrjettur. Fjárkreppan er fólgin í hinu, að fyrir óhófleg vörukaup hefir landið komist í þrot með erlendan gjaldeyri. Það eina, sem sparast mundi í þá átt, ef frv. næði fram að ganga, er pappír og prentsverta, sem vart munu vera svo stórvægilegir liðir, að sparnaður þeirra geti bjargað landinu úr gjaldeyrisvandræðunum.

Jeg hygg því, að þessi sparnaður, sem hv. flm. gera svo mikið úr, sje á misskilningi bygður, þótt jeg hins vegar efist ekki um, að þeir beri þetta frv. fram í góðum tilgangi og telji það hag fyrir land og þjóð, að prentun falli niður, þótt prentarar við það missi atvinnu. En eins og jeg þegar hefi tekið fram, þá hygg jeg það álit þeirra ekki rjett.

Það er og fleira, sem kemur til álita í þessu máli, en sparnaðurinn einn. Sumt er þannig vaxið, að það er ekki sæmilegt að spara til þess. Og svo er um þetta atriði. Hjer sitjum vjer í Reykjavík, fulltrúar heillar þjóðar, sem kjósendur hafa sent á þing víðsvegar af landinu. Og vjer rökræðum velferðarmál þjóðarinnar. En ef frv. þetta nær fram að ganga, þá geta ekki kjósendurnir, sem eru dómarar vorir, vitað, hverju vjer höldum fram í ýmsum málum, hvort það er oss heldur til sæmdar eða vansæmdar. Vildi jeg síst verða endurkosinn til þings vegna þess, að kjósendur mínir hefðu ekki vitað, hverju jeg hefði haldið fram í ýmsum málum í þinginu.

Þar sem jeg nú hefi sýnt fram á, að sparnaðurinn við að þetta frv. gangi fram er að eins sáralítill, aðallega pappír og prentsverta, og hins vegar, að það er ósómasamlegt, að þm. haldi ræður sínar fyrir sama sem luktum dyrum, þá hygg jeg ekki rjett að láta þetta frv. fara gegnum þingið.

Kostnaðurinn við þetta frv. legst og á metaskálarnar gegn því. Ef það á að ganga gegnum þrjár umræður í hvorri deild, og ef til vill koma fyrir sameinað þing, þá hygg jeg, að saxast fari á limina hans Björns míns.

Það er og vitaður hlutur, að umr. þessa þings verða aldrei lengi saltaðar, því þjóðin vill fá að vita, hve tungur þm. sjeu þarfir limir. Upphæðin, sem sparast í bili, verður því í raun og veru engin, því umr. þessa þings verða áreiðanlega prentaðar seinna.