20.02.1922
Neðri deild: 5. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (1089)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Fjrh. (Magnús Guðmundsson):

Örfá orð út af þeim ummælum hv. þm. Dala. (B. J.), að ekki hefði komið fram tekjuhalli á fjárlögunum fyr en á síðustu og verstu tímum (B. J.: Sagði ekki verstu), og fann jeg, að hann meinti með því þann tíma, sem jeg hefi verið í stjórn.

Þetta er algerlega rangt hjá hv. þm. (B. J.), og til þess að taka af öll tvímæli, vil jeg leyfa mjer að lesa, með leyfi hæstv. forseta, örlítinn kafla úr ræðu fjrh. á þinginu 1919:

„Jeg vil leyfa mjer að minna á, að jeg á sumarþinginu í júlímánuði síðastl. gerði ráð fyrir því, að allmikill tekjuhalli mundi verða á árinu 1918, og nefndi hjer um bil 2 milj. eða meira.

Sú spá hefir því ver og miður ræst og hefir tekjuhallinn orðið, eftir bráðabirgðayfirlitinu, h. u. b. kr. 2500000, eða rúmar tvær miljónir fram yfir hinn áætlaða tekjuhalla fjárlaganna.“

Meira þarf ekki til þess að sýna hv. þm. Dala. (B. J.), að hann hefir farið með rangt mál.

Enn fremur eru þau ummæli hans fjarri sanni, að þingið fari fram fyrir luktum dyrum, ef þetta frv. er samþ. Bæði eru ávalt margir áheyrendur að því, sem hjer fer fram, og einnig er gert ráð fyrir, að ræður verði ritaðar upp, eins og áður.