20.02.1922
Neðri deild: 5. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (1092)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Bjarni Jónsson:

Jeg hefði ekki þurft að standa upp aftur, ef hæstv. fjrh. (M. G.) hefði ekki tekið til máls. Það að jeg nefndi hans stjórnartíð var bara af glettni; jeg vildi ekki gera upp á milli hans og annara. En annars átti jeg við síðustu ár, þar sem halli hefir verið á fjárlögunum. Auk þess mundi jeg ekki, hve nær hæstv. fjrh. (M. G.) tók við völdum.

Jeg get ekki verið sammála honum, að þing sje ekki háð fyrir luktum dyrum, þótt Reykvíkingar hlusti á. Fyrst er það, að þeir eru ekki svo minnisgóðir, að þeir kunni rjett frá því að segja, er þar gerist; það er af sá síður, sem tíðkaðist á söguöldinni, að menn settu alt á minnið. Auk þess ferðast Reykvíkingar ekki víðsvegar um land, og í þriðja lagi hafa fjarlæg kjördæmi ekki hugmynd um, hvað hjer verður, þótt það sje geymt í handritum hjer; það er ærin leið að koma norðan af Hornströndum eða Langanesi, til þess að kynna sjer það. Það þýðir ekki að þræta um það, að þetta er sama sem þing sje háð fyrir luktum dyrum, og jeg tel það ekki sæmilegt að fela þannig orð og athafnir þm., sem starfa í umboði þjóðarinnar. Jeg er þeirrar skoðunar, að öll launung í stjórnmálum skapi ilt eitt.

Ef sparnaðurinn væri mikill, þá gæti jeg skilið að menn fylgdu þessu fast fram, en það mun láta nærri, að allur sparnaðurinn getur ekki farið fram úr 30 þús. krónum, en frá því getur margt dregist, og þá er sparnaðurinn sára lítill og ekki samanberandi við það, ef prentararnir yrðu að leggja niður iðn sína, sökum þess, að hún borgaði sig ekki, en þetta er viðbúið; en það er háskalegt að skemma fyrir prentarastjettinni.

Jeg get verið hv. flm. (E. Þ.) þakklátur fyrir hnútukast hans, ef hann vildi láta prenta þau, svo kjósendur hans geti sjeð, hversu spakur hann er í tilsvörum öllum. Vænti jeg nú þess af honum, að hann snúist frá villu síns vegar, svo jeg fái makleg málagjöld fávisku minnar, en kjósendur hans geti klappað honum lof í lófa, sakir vitsmuna og skarpskygni.