06.03.1922
Neðri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (1100)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Í raun og veru þarf jeg ekki að svara ræðu hv. frsm. minni hl. (Þorl. G.), og var jeg að bíða eftir því, að meðnefndarmaður hans eða einhver af flm. þessa frv. tækju til máls, til þess að gera hv. deildarmönnum ljóst, að hann hafi ekki talað fyrir munn þeirra. — Ræða þessa hv. þm. (Þorl. G.) hefir nefnilega verið á þá leið, að jeg býst ekki við, að nokkur í þessari hv. deild treysti sjer til að skrifa undir hana.

Jeg skal þá, til að vekja athygli hv. deildarmanna á nákvæmri eftirtekt hv. þm. (Þorl. G.), minna á það, að jeg vjek alls ekki með einu orði að prenturum í ræðu minni áðan eða á atvinnuleysi það, sem af því mundi stafa, ef prentun umræðupartsins yrði feld niður. Ekki er heldur vikið neitt að þessu í nál. — Jeg get þó ekki stilt mig nú um að drepa lítið eitt á þetta, eftir að hafa heyrt hin eftirtektarverðu orð hv. frsm. minni hl. (Þorl. G.) um það efni. Hann komst svo að orði, að ekki mundi saka, þótt prentun legðist niður að miklu leyti hjer á landi. Já, jeg nenni nú ekki að eyða tíma í það að mótmæla slíkri endileysu. Jeg er sannfærður um, að þess gerist ekki þörf.

Þá kvað hv. frsm. minni hl. (Þorl. G.) það ekki geta komið til mála, að ríkissjóður færi að styrkja prentsmiðjurnar, þótt þær yrðu svo illa staddar, að þær ella yrðu að hætta. Jeg þori óhikað að fullvissa þennan hv. þm. (Þorl. G.) um það, að ef svo færi, að til þess yrði að taka, þá mundi hver einasta hönd hjer í salnum verða rjett upp því til samþykkis, nema þá ef vera skyldi hönd hv. frsm. minni hl. (Þorl. G.); því jeg býst við, að öllum hv. þm. sje kunnugt um það, að fyrir löngu hefir verið viðurkent með öllum siðuðum þjóðum, að prentlistin sje og hafi verið einhver öflugasta lyftistöng og máttarstoð menningarinnar, — og hún hefir verið það jafnt hjer sem annarsstaðar. Jeg verð yfirleitt að játa, að það hrygði mig sárlega að heyra, hvernig hv. frsm. minni hl. talaði áðan. Jeg sje hins vegar ekki, að nein ástæða sje til að ræða málið frá því sjónarmiði, sem hann skoðaði það, enda hygg jeg, að það sje misskilningur, að það sje nokkurt lífsspursmál fyrir prentsmiðjurnar að halda prentun ræðuparts þingtíðindanna. Að vísu er það mikil stoð fyrir þær á erfiðum tímum, og sje jeg í rauninni ekki, að síður sje þá ástæða til að rjetta þeim hjálparhönd en öðrum atvinnuvegum, þegar illa árar.

Þá talaði hv. frsm. minni hl. (Þorl. G.) um, að í rauninni væri enginn atvinnuskortur hjer á landi og að prentarar mundu fá nóg að gera uppi í sveit, ef þeir að eins nentu að bera sig eftir björginni. Jeg verð að segja það, að jeg varð dálítið hissa á því að heyra slík orð frá manni, sem ekki býr lengra frá Reykjavík en þessi hv. þm. (Þorl. G.). Jeg er viss um, að ef þeir menn, sem hafa verið atvinnulausir hjer í mestallan vetur, hefðu getað fengið atvinnu í Árnessýslu eða nærsveitunum, þá væru þeir nú ekki hjer. Það nægir heldur ekki að benda mönnum bara út á sjóinn og segja: „Þarna er þorskurinn. Takið hann og etið ykkur metta.“ Það vita allir, þótt ekki sjeu sjómenn, að þorskurinn verður ekki veiddur með tómum höndum. Menn verða að hafa skip og áhöld til veiðanna.

Jeg get ekki stilt mig um að drepa lítið eitt á þessa ótrúlegu frásögn hans um uppskurðarleysi Alþingistíðindanna. Jeg á satt að segja bágt með að trúa, að margir af þeim, sem á annað borð kaupa Alþt., skeri ekki upp úr bókunum. Og hvað fæð kaupendanna snertir, þá verða það þó að meðaltali 5–6 menn í hverju kjördæmi, sem kaupa þau, og er það alls ekki svo lítið, því það er vitanlegt, að þetta eru þeir menn í kjördæminu, sem mestan áhuga hafa á landsmálum, og leggja þar af leiðandi drýgstan skerf til þeirra mála. Er sá fróðleikur, sem er að finna í Alþt., vel niður kominn hjá þeim, og seitlar auk þess út frá þeim til annara landsmanna.