09.03.1922
Neðri deild: 18. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (1105)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Frsm. minni hl. (Þorleifur Guðmundsson):

Hv. deild hefir nú hlýtt á, hvernig hv. frsm. meiri hl. (Jak. M.) hefir þynt út 30 þús. kr., eytt þeim og gert nær því að engu. Þó hefir hann ekki haft á neinni reynslu að byggja nje vissu, heldur ágiskunum og spádómum. Á þann hátt geta þeir að vísu komist langt, sem skáldmæltir eru, en jeg býst þó ekki við, að hv. þm. (Jak. M.) hafi talið deildinni hughvarf með þessum spádómum sínum.

Það eina, sem hægt er að byggja á á þessu stigi málsins, er það, að prentsmiðjurnar hafa boðið 10% afslátt. Nú kostaði prentun umræðna í fyrra 50 þús. kr., og 2/3 af því eru 33333,33 kr., og þótt gefinn sje 10% afsláttur, þá fer það þó aldrei lægra en í 30 þús. Nú vil jeg náttúrlega ekki neita því, að þessi afrit kunni að kosta eitthvað, en meira en 4–5 þús. kr. verður það aldrei, þótt illa sje á haldið. Að öðru leyti get jeg ekki verið að fara út í þennan spádómsreikning hans.

En hjer er auðsjeð, hvað fara gerir. Þetta er að eins til þess að ráðast á sparnaðarstefnuna og þá, sem eitthvað vilja fara betur með landsfje en aðrir.

En þar sem hv. þm. (Jak. M.) var að tala um, að nú mætti hafa meira en áður upp úr Alþt., þá datt mjer rjett til svona í hug, hvort ekki væri þá rjett að gefa einhverri prentsmiðjunni einkarjett til útgáfu Alþt. Jeg get vel unt henni þess að græða á því. Og ef það þarf ekki að kosta neitt fyrir ríkissjóð, þá er jeg ekki á móti því, að umræðurnar verði prentaðar.

Jeg hefi nú litla trú á því, að spádómsreikningarnir rætist, enda vona jeg, að hv. deildarmenn fari sína leið fyrir þeim við atkvgr. þessa máls.