09.03.1922
Neðri deild: 18. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (1108)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Jón Þorláksson:

Það var ilt, að þessar tölur, sem hv. frsm. meiri hl.(Jak M.) las nú upp, voru ekki teknar upp í nál. Það er ekki nærgætnislegt að ætlast til þess, að vjer getum áttað oss á löngum tölureikningi í mörgum liðum, þótt lesinn sje upp í flýti. Slíkt þarf að standa í nál., svo að hægt sje að rannsaka það.

Það, sem gerist í þessu máli er dæmi um það, hvernig fer, þegar reynt er að spara. Allir þykjast vera sparnaðarmenn, því að þeir vita, að það er vinsælt af þjóðinni En þegar til einstakra tilrauna kemur, sem ganga í þá átt að spara, þá koma ótal mótbárur gegn hverri slíkri tilraun.

Jeg ætlaði nú ekki að fjölyrða um þetta mál, en jeg vildi meta tækifærið til að benda hv. sparnaðarnefnd á, að ástæða kynni að vera til að rannsaka alla prentun, sem framkvæmd er fyrir hið opinbera, og sjá, hvort ekki mætti þar spara eitthvað. Jeg skal geta þess, að jeg varð einu sinni svo frægur að vera ½ ár meðeigandi í prentsmiðju, og þá kyntist jeg því, hvernig komið var fram gagnvart hinu opinbera. Þá höfðu prentsmiðjurnar samtök með sjer og voru þung viðurlög við, ef ein prentsmiðja bauð í fast verk, sem önnur hafði haft. Þessi samtök munu hafa haft í för með sjer mjög mikla hækkun, einkum á því, sem unnið var fyrir hið opinbera. Jeg veit ekki, hvort svo er enn, en þessi tilboð um afslátt á afslátt ofan benda þó fremur í þá átt. En hitt veit jeg, að hve nær sem gengið er að því með alvöru, þá er hægt að fá opinbera prentun fyrir sæmilegt verð.