09.03.1922
Neðri deild: 18. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (1110)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Jón Þorláksson:

Það er ekki rjett hjá háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), að jeg teldi ágiskun hans nærri lagi, en það er satt, að litlu skiftir þótt sparnaður verði á einhverju, ef umráð þess fjár eru í höndum þeirra manna, sem ósýnt er með fje að fara, en ella skiftir það miklu.

Annars verða hv. þm. að gæta þess, að afstaða okkar til þessa máls má ekki eingöngu miðast við þau tilboð, sem nú liggja fyrir. Verði þetta frv. nú felt, þá verða umræðurnar prentaðar í ár og áfram, og má þá vel vera, að prentsmiðjurnar hafi góðan hagnað af prentuninni, enda þótt þær tapi á henni í þetta eina skifti. Kemur þetta vel heim við það, sem háttv. þm. (Jak. M.) sagði, að atvinnufyrirtæki veldu oft þann kostinn að reka atvinnu með tapi í bili.

Jeg skal játa það, að það er leitt að þurfa að svifta menn atvinnu, en þess er hjer að gæta, að prentun umræðupartsins fellur aðallega á sumartímann, og þá hefir það verið venja, að fjöldi handiðnarmanna hjer í Reykjavík hefir leitað sjer annarar atvinnu úti um sveitir. Man jeg það, að á meðan jeg hafði stjórn vegamálanna á hendi, þá rjeði jeg fjölda þessara manna í vinnu hjá mjer, og þótti þeim það gagnlegt heilsunni að fá sjer útivinnu um stundarsakir.