24.03.1922
Efri deild: 28. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (1119)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg býst við, að þessar umræður hafi lítil áhrif á úrslit málsins. Jeg geri ráð fyrir því, að frv. verði samþ. En jeg vil þó lýsa afstöðu minni, og hún er eins og hún hefir altaf verið. Jeg get ekki verið með því að spara 14–16 þúsund krónur og loka með því Alþingi fyrir þjóðinni. Jeg sje ekki, hvernig þjóðin á að geta fylgst með störfum Alþingis, ef hætt verður að prenta Alþingistíðindin, því að þó að blöðin flytji frjettir af Alþingi, þá gefa þær mjög ófullnægjandi mynd af því, sem hjer fer fram, og minst af öllu er hún sönn, því þeir, sem ekki eiga upp á pallborðið hjá blöðunum, mega ýmist eiga von á því, að orð þeirra sjeu ranghermd eða þá þagað yfir öllu, sem þeir segja, sem af viti er, ef það kynni að lækka þá í áliti hjá þjóðinni. Jeg veit að því er haldið fram, að Alþt. sjeu lítið lesin, en allir þeir, sem hafa áhuga á landsmálum og vilja fylgjast með, lesa þau, og þetta eru vanal. leiðandi mennirnir hjá þjóðinni. Jeg fæ ekki betur sjeð en að frv. þetta fari fram á það að útiloka þjóðina frá því að hafa eftirlit með fulltrúum sínum, og að því get jeg ekki stuðlað. Þetta er hættuleg braut og er í góðu samræmi við þá till., sem einu sinni kom hjer fram á Alþingi, að hafa leyniatkvgr. um ýms stórmál í þinginu.