23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

1. mál, fjárlög 1923

Hákon Kristófersson:

Mjer skildist á orðum hæstv. atvrh. (Kl.J.), að hann sæi sjer ekki fært að verða við hinni eðlilegu og sjálfsögðu áskorun háttv. frsm. (B.J.), að láta nauðsynlegar framkvæmdir viðkomandi símalagningu frá Búðardal til Króksfjarðarness eiga sjer stað á næsta sumri, nema til þess sje veitt fje í fjárlögunum. Í þessu sambandi vil jeg leyfa mjer að benda á það, að í núgildandi fjárlögum er ákveðin upphæð til nefndrar símalagningar. Því vænti jeg þess, að háttv. atvrh. ekki aðeins sjái sjer fært, heldur telji sjer skylt að verða við áskorun hv. frsm. um þetta efni.