01.03.1922
Neðri deild: 11. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (1127)

35. mál, bæjarstjórn í Reykjavík

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg þykist í greinargerðinni hafa skýrt frv. þetta svo og aðalbreytingar þær, sem það gerir á gildandi lagaákvæðum um þetta efni, að ástæðulítið er að hafa um það mörg orð nú að þessu sinni.

Hitt vildi jeg benda á, að það virðist ekki ástæðulaust að breyta skilyrðum fyrir kosningarrjetti hjer í Reykjavík, í fyrsta lagi af því, að þau eru talsvert þrengri heldur en skilyrði fyrir kosningarrjetti til Alþingis, og í öðru lagi eru þau þrengri en skilyrði fyrir kosningarrjetti í öðrum kaupstöðum landsins, að einum undanskildum.

Jeg get hugsað mjer, að það, sem helst kynni að vera haft á móti þessu frv., sje það, að með þessari rýmkun, sjerstaklega að því er aldurstakmarkið snertir, komist meira los á alt. En ef vel er að gáð, er sú ástæða ekki mikils virði. Mörgum þykir nú vera fullmikið los á ýmsu í þjóðfjelaginu og um hreinar línur í landsmálum er naumast að tala. Hefir hið háa Alþingi jafnvel hlotið ámæli í þessu efni, og eru þó flestir háttv. þm. ráðnir og rosknir. Í aths. við frv. er á það drepið, að unga fólkið muni vera áhugasamara um opinber mál en hinir eldri. Hygg jeg að þessu verði ekki í móti mælt. Unga fólkið hefir tekið að sjer ýms nauðsynjamál og borið þau uppi. Vil jeg t. d. benda á ungmennafjelögin. Þau hafa mikið gert til þess að glæða áhuga fyrir mörgum þjóðþrifamálum, og mesta nauðsynin er að menn skipi sjer í fylkingar málefnanna vegna, og þar stendur unga fólkið áreiðanlega feti framar mörgum hinna eldri. Það er því síður en svo, að meira los komist á, þó þessi rýmkun á aldurstakmarkinu verði gerð; miklu fremur er ástæða til að vona, að skipulag og festa verði fremur ráðandi, að því er til opinberra mála kemur.

Hið háa Alþingi hefir bæði með berklaveikislögunum og breytingu fátækralaganna frá síðasta þingi viðurkent rjettmæti þess að láta menn ekki missa borgaraleg rjettindi, þó að þeir þurfi á hjálp þess opinbera að halda. Og nú er í þessu frv. ætlast til, að feti framar sje stigið og að sveitarstyrkur alment svifti menn ekki rjettindum. Enda verður nú allmikið misrjettið, þegar maður sem að læknisráði fer á sjúkrahús, missir einskis í, en hinn, sem liggur heima hjá sjer og þiggur styrk vegna veikindanna, er gerður rjettlaus. Aldraðir einstaklingar, hversu mikið gagn, sem þeir hafa unnið sveit sinni, sæta líka sömu kjörum, ef þeir þurfa á hjálp að halda, og er slíkt herfilegt langlæti. Þá er ómegð oft orsök þess, að menn missa rjettindi sín. Eru allmargir þeirrar skoðunar, að fremur beri að verðlauna barnamenn heldur en að hegna þeim með rjettindamissi, enda mun líka ein mesta menningarþjóðin hafa gert það.

Má fyrir þessu öllu enn færa margar ástæður, en jeg sleppi því að þessu sinni fyrir þá sök, að þetta var allítarlega rætt á síðasta þingi og þessi hv. deild afgreiddi þá frá sjer mjög frjálslegt frv. um kosningar í bæjar- og sveitarmálefnum. Vænti jeg því, að hv. deild taki þessu frv. vel, og vil jeg, að lokinni þessari umr., leggja til, að því verði vísað til allshn.