15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (1143)

30. mál, fjárhagsár ríkissjóðs

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Það er auðsýnilega til bóta, að gengið sje frá fjárlögunum sem næst þeim tíma, er þau taka gildi. En eins og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) tók fram, má kippa þessu í lag einnig með því að breyta þingtímanum.

Út af fyrir sig er það aldrei til gagns að breyta um reikningsár, hvort heldur farin verður sú leið, sem lagt er til í frv., að taka 3 mánaða tíma fyrir sig sem eitt fjárhagstímabil eða hin, að telja 5 ársfjórðunga eitt reikningsár. Að breyta reikningsárinu hlýtur ávalt að hafa allmikinn rugling í för með sjer, og tölur verða þá ekki eins sambærilegar og ella. Það ætti því ekki að breyta um reikningsár, nema brýn nauðsyn beri til. Og auðvitað er það skilyrði fyrir því, að þessi breyting verði til bóta, að þingið komi saman einhverntíma á þessum þrem mánuðum, nóvember, desember eða janúar. Annars líður jafnlangur eða lengri tími milli þings og gildistöku fjárlaganna, og er þá ekkert unnið við breytinguna.

Þá vil jeg minnast á það, að um leið og flutt er fjárhagstímabilið, þá hljóta og öll reikningsskil líka að flytjast fram á árið, og þar með koma 3 mán. síðar fram. En verulegasti kosturinn við þessa breytingu ætti einmitt að vera sá, að menn hefðu einu ári yngri landsreikninga til þess að styðjast við við samningu og meðferð fjárlaganna. Þá vil jeg og geta þess, þó ekki sje það höfuðatriði, að allmargir þeir embættismenn, sem mest hafa með reikningsskilin að gera, hafa talið ýms tormerki á breytingunni.

Eins og jeg hefi þegar tekið fram, er um tvær leiðir að ræða í þessu máli, annaðhvort að breyta reikningsárinu eða færa þingtímann. Færsla þingtímans dregur engan dilk á eftir sjer, að því er best verður sjeð, en breyting á fjárhagsárinu getur verið mjög varhugaverð, og algerlega ófært að breyta til um slíkt oftar en einu sinni.