15.03.1922
Neðri deild: 23. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (1144)

30. mál, fjárhagsár ríkissjóðs

Sveinn Ólafsson:

Mjer kom í hug áðan þessi gamli málsháttur: „Hverjum þykir sinn fugl fagur.“ Mjer sýnist sem hann hafi ræst á hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Segi jeg þetta vegna þess, að mjer finst þessi hv. þm. hafi einvörðungu talið upp kostina, sem þó eru fáir og ljettvægir, við það að færa fjárhagsárið og miða við apríllok í stað nýárs, en algerlega gengið fram hjá ókostunum. Suma af þessum ókostum hefir nú hv. fjrh. (Magn. J.) nefnt, en þó ekki nærri alla.

Það undrar mig raunar ekki svo mjög, þótt hv. flm. (J. Þ.) hafi dregið mjög fram kosti þessa frv., og þá suma mjög vafasama, en hitt furðar mig, að allshn. skuli ekki hafa sjeð ókosti frv. og athugað þá.

Jeg skal benda á það, að þó fjárhagsárinu verði breytt í það horf, sem frv. fer fram á, þá er ekki þar með algerlega girt fyrir, að aukafjárlög komi fram. Ýmislegt getur komið fyrir, sem gerir það nauðsynlegt að fara út fyrir ramma fjárlaganna og koma með fjáraukalög. Jeg nefni þetta einmitt vegna þess, að það hefir verið notað sem aðalástæðan fyrir breytingunni. En sá kostur frv. er eftir minni hyggju að miklu leyti ímyndaður.

Aðalókostirnir við breytinguna virðast hafa að mestu gleymst hv. flutningsmanni og nefndinni. Fyrst er sá, og eflaust sá stærsti, að með þessu móti yrði að færa þingtímann aftur á bak, nær sólhvörfunum, nær skammdeginu, óhentugasta og hættulegasta tímanum til þinghalds og ferða. Nú muna háttvirtir þingdeildarmenn, að vetrarþing var fyrst tekið upp eftir aldamótin síðustu, en stóðu þá að eins nokkur ár. Var þeim þó ekki hætt sökum þess, að ísar og ill veðrátta hamlaði ferð þm., því svo hittist á alla þessa vetur, að góð var tíð þá mánuði, sem þing stóð yfir. En alt öðru máli hefði orðið að gegna suma veturna bæði fyrir og eftir þetta árabil. Skal jeg til dæmis taka veturinn 1918. Ef vetrarþing hefði verið háð þann vetur, hygg jeg að margur þm. hefði fengið nauðsynleg kynni af því, hvernig þau geta gefist. Þá var svo ástatt bæði janúar- og febrúarmánuð, að skipagöngur fyrir Norður- og Austurlandi urðu að hætta, en þau skip, sem á ferð voru, lágu föst vikum saman á höfnum sökum hafísa og illviðra. Það er ljóst, að ef þingtíminn yrði fluttur nær sólhvörfunum, þá verða skipaferðirnar kringum landið til þings enn hæpnari í myrkri og hríðum en þegar dag lengir, og jafnvel fyrirsjáanlegt, að þinghald gæti farist fyrir með öllu á lögákveðnum tíma.

Mjer virðist þá líka, að nefna megi mannhættu þá, sem oft er samfara þessum miðsvetrarferðum. Mætti telja upp marga skipreka, bæði fyrir og eftir aldamótin síðustu, sem orðið hafa af ísreki um þetta leyti árs, og er sú hætta jafnan opin, þótt hún hafi enn þá ekki orðið neinum þm. að tjóni. Er þetta eitt næg ástæða til að vera á móti þessu frv.

Ef breyta á til á annað borð, þá hygg jeg að besta úrlausnin verði sú, sem hæstv. fjrh. benti á, nefnilega að þoka til þingtímanum til haustsins, en lofa fjárhagsárinu að vera eins og það nú er. Er það fyrir margra hluta sakir hentugra að láta það og almanaksárið falla saman, eins og verið hefir. Hins vegar væri þá sjeð við þeim vandkvæðum, sem jeg gat um áður, með því að færa þingtímann aftur fyrir áramót, og þá svo mikið, að þingslit gætu orðið fyrir jól. Veit jeg engin dæmi þess hjer á landi, að ísrek hafi hamlað göngum skipa 3 síðustu mánuði ársins, en iðulega hafa þær tepst á 3 fyrstu mánuðunum og jafnvel lengur.

Fyrir þetta, sem jeg hefi nú getið um, hefði jeg helst viljað fella þetta frv. þegar í stað, svo það þyrfti ekki að tefja okkur lengur. Jeg get þá vel sætt mig við, að sú aðferð sje höfð, sem háttv. flm. hefir stungið upp á, að láta það bíða 3. umr., þar til sjeð er, hvernig fer um þál. þá sem fram var borin af sparnaðarnefndinni í sameinuðu þingi, um breytta þingskipun eða stjórnarskrárbreytingu.