23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

1. mál, fjárlög 1923

Forsætisráðherra (S.E.):

Hvað viðvíkur 22. brtt. við 14. gr. get jeg tekið í sama strenginn og háttv. frsm. (B.J.), um að það sje rangt að gera upp á milli skrifstofukostnaðs biskups og landlæknis. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi aflað mjer um störf þeirra, munu þau vera lík.

Viðvíkjandi 23. brtt. skal jeg leyfa mjer að skjóta þeirri spurningu til háttv. nefndar, hvort þessi styrkheimild sje veitt án tillits til lánsheimildarinnar í 1. nr. 35 frá 20. okt. 1913. Þá var stjórninni heimilað að veita alt að 15000 kr. í lánum. þannig að hverjum presti mátti veita 5000 kr. lán. Jeg býst að sjálfsögðu við, að nefndin ætlist til, að báðar heimildirnar standi áfram.

24. brtt. þarf jeg ekki að minnast á.

Viðvíkjandi 25. brtt. skal jeg geta þess, að mjer þykir nokkuð hart aðgöngu, að skólagjöld skuli verða tekin af þeim mönnum, sem þessa skóla sækja, en fjárhagsvandræðin eru auðvitað mjög tilfinnanleg og nokkur bót í máli er að því, að heimilt er að veita efnalitlum mönnum frípláss.

Hvað snertir 29. brtt., þá hefi jeg skýrt afstöðu mína til þess máls þegar frv. um frestun fræðslulaganna var til umræðu. Er nokkuð einkennilegt, að háttv. fjvn. skuli miða við ástand, sem ekki er komið á og enginn býst við, að nokkurn tíma komist á. Frv. þetta er bein árás á alþýðumentunina í landinu, og hygg jeg að engum blandist hugur um, hve mikla þýðingu barnafræðslan hefir fyrir þjóðina, ekki síst nú, er kominn er á almennur kosningarrjettur.

Öllum er kunnugt um, að meiri hluta allra heimila á landinu er ómögulegt að veita börnunum nægilega fræðslu, vegna fólksskorts, og prestaköllin eru nú orðin svo stór, að prestarnir hafa alls engan tíma afgangs til að sjá um fræðslu barnanna.

Það er því aðeins til málamynda, er menn segjast ætla að bæta úr barnafræðslunni með aðstoð prestanna. (H.K.: Hvað hafa þeir að gera?). Þeir eru uppteknir af sínu starfi, og hjelt jeg satt að segja, að jeg þyrfti ekki að skýra háttv. Alþingi frá starfi prestanna eða hverja þýðingu þeir hafa fyrir þjóðlífið.

Mjer finst háttv. Alþingi sýna hið mesta ábyrgðarleysi, ef það ætlar að fara svo með fræðslu barnanna. Árangurinn yrði eingöngu sá, að efnaðra manna börn hlytu fræðslu, en börn fátæklinga enga.

Jeg verð að leggja fast að háttv. Alþingi að breyta ekki hvatvíslega í þessu máli, því ef þetta fyrirkomulag yrði innleitt, mundu sárfáir landsmenn verða læsir eða skrifandi að 20–30 árum liðnum. Menn sjá ástandið í gamla daga í hillingum. Er jeg ekki í nokkrum vafa um, að alþýðumentunin var langtum verri þá en nú. Það eina sem gæti komið til greina, er að liður 3 fjelli niður.

Þá kem jeg að 30. brtt. Jeg er í raun og veru ekki mótfallinn þeirri hækkun, sem háttv. nefnd þar fer fram á, en hún mun vera sett með tilliti til lækkunarinnar á undanfarandi lið, og mun ekki haldið fram, ef hann fellur.

31. brtt. er nýr liður og fer fram á að veita Ingibjörgu Guðbrandsdóttur 600 kr. styrk til kenslu. Þótt þessi till. fari ekki í sparnaðaráttina, vil jeg samt ekki leggjast á móti henni, því jeg veit að hlutaðeigandi hefir mikinn áhuga á starfi sínu og er vel til þess fallin. (M. G.: Hvað hefir hún kent mörgum á ári?). Það veit jeg ekki; hefi engar skýrslur um það nú.

Þá kemur 32. brtt., um að veita 1500 krónur til að ljósmynda og afrita skjöl í söfnum erlendis. Við þann lið hefi jeg ekkert að athuga, og ekki heldur þann lið, er lýtur að fjárveitingu til kaupa á listaverkum. Honum er jeg samþykkur. Þá kem jeg að 43. brtt., sem er við 15. gr. Eins og mönnum er kunnugt er athugasemd um það í núgildandi fjárlögum, og einnig í frv. stjórnarinnar, að styrk þessum skuli úthlutað af 3 manna nefnd, þar sem einn maðurinn er kosinn af Listvinafjelaginu, annar af Bókmentafjelaginu og þriðji af Stúdentafjelagi Reykjavíkur. En nefndin ætlast til, að þessi aths. falli niður og stjórninni verði falin úthlutunin. Jeg var einn þeirra manna, sem fyrst kom upp með það að fela þannig kosinni nefnd úthlutun styrksins, og jeg er þeirrar skoðunar enn, að heppilegra sje að fela henni það en stjórninni. Það verður að ganga að því sem vísu, að nefnd, sem þannig er kosin, hafi meiri sjerþekkingu á þessu sviði en stjórnin. Hún er þá illa skipuð, ef hún hefir það ekki. Það getur altaf komið fyrir, ef stjórnin úthlutar styrknum, að álitið verði, að pólitík ráði nokkru um styrkveitinguna, en sá grunur kemur síður fram ef svona nefnd úthlutar. Jeg verð því að mæla með því að aths. stjórnarfrv. fái að standa áfram. Menn mega ekki gleyma því, að þó menn sjeu kannske óánægðir með úthlutun þessarar nefndar, þá var iðulega megn óánægja meðan stjórnin eða þingið gerðu það.

Þá er nýr liður, til Sveinbjörns Sveinbjörnssonar. Býst jeg við, að það eigi að vera heiðurslaun til þessa manns og muni eiga að standa áfram. Er jeg því meðmæltur.

Þá er 45. brtt. við 15. gr., að hækka styrkinn til dr. Helga Jónssonar úr 1200 kr. upp í 2000. Því er jeg samþykkur, því að jeg þekki áhuga þess manns á vísindum og gagnsemi starfs hans.

Þá má og benda á, að Poestion hefir unnið oss mikið gagn. Hann hefir breytt út þekkingu á þjóðinni erlendis og tekið miklu ástfóstri við íslenskar bókmentir. Hygg jeg því, að það sje að verðleikum að styrkur hans er hækkaður af fjvn. Legg jeg til, að það verði samþykt.