09.03.1922
Neðri deild: 18. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (1156)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg verð að segja það, að mjer fanst, að fjöllin tæki jóðsótt, þegar hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) hjelt, að jeg væri hræddur við sig. (Þorst. J.: Hann óttast ef til vill einhverja aðra en mig).

Háttv. þm. N.-M. (Þorst. J.) gat þess í ræðu sinni, að þetta mál, sem nú er rætt hjer, heyrði undir mentmn., en ekki fjvn.; en það er þá yfirsjón af þeirri háttv. nefnd að hafa ekki borið fram nein slík frv., þannig að fjvn. gæti sniðið till. sínar eftir því.

Hv. þm. (Þorst. J.) segir sömuleiðis, að þar sem þm. Dala. sje ekki lengur í mentmn., hafi hann ekki lengur tillögurjett um mentamálin, en þm. Dala. mun nú samt sem áður gerast svo ósvífinn, og spyr háttv. mentmn. ekki um leyfi, enda tel jeg þessa nefnd ekki hafa neitt einkaleyfi á því að gera till. um þau.

Jeg þóttist hafa skýrt til fulls í fyrri ræðu minni, hvers vegna fjvn. kom fram með þetta frv., áður en hún leggur síðustu hönd á fjárlögin, og mun ekki fjölyrða það mál.

Jeg sje hjer, að háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) hefir talað um þm. Dala. og 18. öld. Jeg veit ekki vel, á hverju það er bygt, af því að jeg var svo óheppinn að þurfa að fara frá, en jeg hefi frjett, að það sje vegna þess, að í frv. er vísað til tilskipunar frá 18. öld um húsvitjanir. Fjvn. vísar til hennar af því, að hún er enn þá í gildi, og engin önnur lög um þá hluti. Mjer er ókunnugt um, hvað hann hefir spunnið út af þessu, en það var gott, að við gáfum honum eitt ártal til að byggja á, svo að ekki var alt í loftinu, sem hann sagði.

Hitt hafði jeg haldið, að það væri ekki ofætlun hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) að vita, að þetta eru hin einu húsvitjunarlög, sem enn eru í gildi, og jeg vildi þá minna hann á það um leið, sem sparnaðarmann, hvort það mundi fjarri sanni að nota til fræðslunnar ekki lakari krafta en prestarnir eru, því það hefir nú einu sinni verið svo á umliðnum öldum, og 18. öldinni líka, sem hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) þorir ekki að nefna, að það voru prestarnir, sem voru menningarfrömuðir þessarar þjóðar og hjeldu að mestu leyti uppi allri fræðslu í landinu, og jeg treysti prestunum líka betur til þess enn heldur en t. d. þessum mönnum, sumum þeirra að minsta kosti, er koma frá kennaraskólanum. Jeg treysti prestunum betur og tel þá færari, því að þeir hafa þó að viðbættri heimafræðslunni gengið í gegnum sex bekki mentaskólans, síðan farið í háskólann og sumir bætt við sig, að því loknu, aukanámi. — Um þetta þykist jeg geta borið af eigin reynslu, því flestir prestar þessa lands eru annaðhvort skólabræður mínir eða nemendur. Ætti því engan að furða, þó að fjvn. vilji hefja til gengis þetta starf, því að þetta er sá þáttur uppeldismála þjóðarinnar, sem á engan hátt má vanrækja nje stinga undir stól.

Þá þótti sama hv. þm. (Þorst. J.) kynlegt að kæra þá menn til sekta, sem vanrækt hefðu að kenna börnum sínum þá undirstöðu, sem fræðslulögin heimta af fermingarbörnum, og fer þá að verða erfitt að fylgja hugsanagangi háttv. þm. (Þorst. J.). Það er ekkert kynlegt við það, þó að mönnum haldist ekki uppi að þrjóskast við að kenna börnum sínum. Væri ekkert sektarákvæði, mætti búast við, að ýmsir ljetu sig litlu skifta um uppfræðslu barna sinna. En nefndin lítur svo á, að það sje ekki ríkisins verk að kenna börnum þessi undirstöðuatriði, svo sem lestur, skrift, reikning o. s. frv. Og það er langt frá því að sýna nokkra harðýðgi að ætlast til þess, að foreldrar eða heimilin annist slíkt uppeldi. Þetta er skylda, sem hlýtur að hvíla á heimilunum, eins og t. d. það, að fæða börnin, klæða þau og skæða þau. Og sje þessi uppeldisskylda að engu virt af þeim, sem eiga hana að annast og geta það, þá er rjett að sækja slíka menn til sekta, eins og líka ætlast er til að koma þeim mönnum til hjálpar, sem einhverra hluta vegna geta ekki sjálfir haft þessa fræðslu með höndum.

Jeg sje, að þm. (Þorst. J.) hefir lesið eitthvað upp eftir Harboe, en jeg var ekki inni, svo jeg þakka honum ekkert fyrir þá fræðslu, sem jeg þykist vita að hann hafi ætlað að veita mjer. En það hefir víst átt að vera fyndni, eftir því sem mjer skilst, og ætti þm. (Þorst. J.) því að þakka mjer fyrir að hafa bent honum á þetta. En þessi fyndni hans hefði tæplega verið hrumlegri, þó að þm. hefði fæðst á 18. öld og lifað þangað til nú.

Þá hefir háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) sagt, og hefir það eftir þm. Dala. (B. J.), að skólarnir drepi heimafræðsluna. Úr þessu verður honum svo mikill matur, að hann fleygir út mörsiðrinu. Hans rökfimi verður á þessa leið: Það er að styðja heimilisfræðsluna að taka hana af foreldrunum og heimilunum og fá hana óreyndum og ókunnugum mönnum í hendur. Það er að styðja heimilisfræðsluna, að annar ábyrgist það, sem hinn gerir. Hvað segja hv. þm. um aðra eins rökfærslu og þetta?

En um þetta atriði þarf ekki að deila. Allir almenningur veit, að heimilisfræðslunni hefir hnignað stórum síðan farið var að senda börnin í skólana og heimilin hætt að hafa eftirlitið.

Hann sagði, þessi oftnefndi sami þm. (Þorst. J.), að fræðslulögin væru komin af því, að heimilin hefðu ekki verið fær um að annast fræðsluna. Það má vera, að slík heimili hafi verið til. En þó að jeg sje nú ekki fæddur á 18. öld, þá man jeg og þekki fjölda heimila, bæði á undan og eftir að fræðslulögin voru sett, og þau voru aldrei ófær um að annast þessa uppeldisskyldu, en þó er þetta verra nú. Því alt skólakák með ljelegum kennurum og litlum launum er niðurdrep í hverju þjóðfjelagi sem er. Enda virðist nú svo komið, að markmið fræðslulaganna sje að ala upp menn, sem ekki sjeu færir um að ala upp sín börn. Fræðslan hefir verið tekin af þeim mönnum, sem áhuga höfðu á starfinu, og fengin öðrum, sem ekki voru menn til að taka hana að sjer.

Þá sagði sami þm. (Þorst. J.), að milliþinganefnd fræðslumálanna hefði sent fyrirspurnir um ágæti fræðslulaganna út um allar sveitir, og engar umkvartanir borist. Jeg þykist nú vita, að ýmsum fleiri en mjer komi undarlega fyrir sjónir, að úr því játað er, að þjóðin sje svo menningarsnauð orðin, að heimilin geti á engan hátt haft þessa litlu fræðslu með höndum, sem um er deilt, þá geti þó almenningur gerst ráðunautur stjórnarinnar og milliþinganefndar um þau atriði, er að heimilisfræðslunni lýtur; eftir að fólkið er ófært til þess að annast heimilisfræðsluna, þá sje sjálfsagt að byggja á svörum þess, hvernig haga skuli fræðslumálunum. Það er dáfallegur hugsanagangur þetta, og ekki nema von, að ætlast sje til, að ríkissjóður haldi áfram að styrkja og ala upp menn með slíkri rökvísi!

Jeg hjelt aldrei fram, að þetta fyrirkomulag, sem frv. fer fram á, kostaði minna, enda benti jeg á það, að frv. væri ekki sparnaðarfrv. Það er fram komið til þess að losa fje ríkissjóðs og láta það þar, sem vænta má að það beri meiri og betri ávöxt. Jeg tel nóg, ef ríkissjóður borgar framhaldsnáin unglinganna, en undirstöðu námsins er skylda foreldranna að annast. — Jeg myndi sem foreldri þakka fyrir að koma drengjum mínum í framhaldsskóla, en tel mjer engan hátt ofvaxið að annast um undirstöðuatriðin.

Þá varð háttv. 1. þm. N.-M (Þorst. J.) skrafdrjúgt um flaustur það, er gripið hefði okkur nefndarmennina í undirbúningi þessa máls. En jeg vil spyrja hann: Hvað var langur undirbúningstími, þegar fræðslulögunum var flaustrað inn á þing? Þau komu óboðin. Engar kvartanir höfðu borist um heimilisfræðsluna, og prestarnir höfðu getað fermt allan þorra manna. Nei, þessi lög voru upphaflega hugsuð í flaustri. Þau voru samin og sett í flaustri og hafa síðan verið rekin í flaustri.

Fræðslulögin voru fyrirfram dauðadæmd. Þau voru útburður frá öðrum þjóðum og komu í bága við hætti lands og þjóðar. Það er hörmulegt að sjá þessa beitarhúskofa, sem nefndir eru skólahús, dreifða út um sveitirnar, sem svo langur vegur er til, að endast mundi fullröskum manni til bana að fara þá leið, ef um Íslenskan manndrápsbyl væri að ræða. Og það er ekki flausturslögum þessum að þakka, heldur miklu fremur guðs mildi, að þetta fyrirkomulag skuli ekki hafa kostað tugi barna lifið þeir, sem þekkja til íslenskra bylja, þá furðar á, að líf barna skuli ekki hafa sópast burt í heilum sóknum, þar sem um jafnlangan veg er að ræða og sumstaðar er til þessara heimangönguskóla.

Þess vegna verður að semja upp alt fræðslukerfið, og það verður að byggja það á þjóðlegum grundvelli eftir landsháttum og veðráttufari því, er við eigum við að búa, Og jeg hefi ekki getað sannfærst um, að þessu eigi að skjóta á frest, enda hefi jeg þann stuðning í þessu máli, að jeg mikla ekki fyrir mjer að mæta háttv 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) á hösluðum velli, jafnvel þótt hann verði ægilegur ásýndum.

Háttv. sami þm. (Þorst. J.) var að vitna í gamanleik, sem jeg átti við þm. ýmsa á öndverðum þessum fundi, en af því að þm. (Þorst. J.) er svo óvitur að skilja ekki fyr en skellur í tönnum, þá vil jeg segja honum það, að þetta var fram borið í glensi og vegna þess, að jeg ætlaði mjer ekki að eiga þátt í umr. um sjálfan mig í máli því, er næst er á dagskrá. En óþarft var honum að gera mjer neinar getsakir, því þó að þingseta hans sje ekki löng, þá má honum þó kunnugt vera, að jeg hefi fullkomna alvöru sýnt í fræðslumálum þjóðarinnar og látið mig þau skifta framar öðru.

Þá sagði sami hv. þm. (Þorst. J.), að ef um skólaskyldu væri ekki að ræða á 10–14 ára aldrinum, þá yrði skólaskyldan á unglingsárunum. — Þessi rökvísi þm. verður öðrum lík í ræðu hans, því eftir okkar frv. er það sama heimtað af heimilunum og fræðslulögin gera. Það hlýtur að mega standa á sama, hvaðan barnið fær fræðsluna, hvort heldur það sje á heimilinu eða hjá prestinum, eða kennari tekinn; lögin ákveða, hvað það sje mikið, sem börnin eiga að kunna undir staðfestinguna. Annars myndi það ekki skelfa mig, þó að unglingaskólinn yrði að bæta einhverju við sig, því honum mundi takast furðu fljótt að fullnægja þessu 4–5 mánaða káki, sem nú tíðkast í sveitum víða.

Hann kallar útúrsnúning hjá mjer á kröfunum, en það er rangt. Jeg nefndi að eins sem dæmi flaustursorðalag greinarinnar. Ef hann, þm. og barnakennarinn, kann að reikna flatarmál og rúmmál með fjórum höfuðgreinum og brotum, þá kennir hann sjálfsagt öðrum það. Jeg kann það ekki og veit ekki til, að nokkur kunni það, en þetta sýnir, hve greinin er flausturslega samin. Hann mintist líka á í þessu sambandi, að kröfur þær, sem lögin settu um kunnáttu barna, væri lágmark. Nefndin gerir líka ráð fyrir, að svo sje, en hún vonast eftir, að börnunum verði samt kent langtum meira heldur en nú tíðkast með þessu kákfyrirkomulagi, sem helsti lengi hefir staðið.

Þá var það ein af höfuðástæðum hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) með fræðslulögunum, að kennarar samkvæmt þeim hefðu bætandi áhrif á skapgerð barnanna. Þarna kom hann að því, að skólamir hefðu bætandi áhrif á skapgerð barnanna! Það má nú svo að orði kveða, að þar legði hann smiðshöggið á alla þekkingu sína til þessa máls og rökvísi. Það er einmitt í ungmennaskólunum, sem hafa má áhrif á skapgerð nemendanna, en alls ekki í barnaskólum. Góður maður getur altaf haft áhrif, en reynslan hefir sýnt, að það vill þó ekki hepnast í stórum barnaskólum. Þetta vita menn, og þetta gæti þm. t. d. kynt sjer í Reykjavík. Þar rjúka áhrifin út í 5-mínútunum. Ef honum er alvara að bæta skapgerð barnanna, þá ætti hann ekki að forðast heimilin. Þeim hefir hingað til betur tekist að móta börnin heldur en skólunum. Barnaskólar eru böl, en jeg skal játa það, að þeir eru böl, sem ekki verður hjá komist þar, sem mikið fjölmenni er saman komið á einum stað. Þetta er viðurkent um allan heim; þó getur það verið nauðsynlegt að hafa skóla í kauptúnum, en að fara að reka þá upp um allar sveitir þessa lands, hversu strjálbygðar sem þær eru og fámennar, það er eftir viti þeirra manna, sem ekki vita um uppruna sinn og þekkja ekki lengur tungu þjóðarinnar og sögu. Slíkir menn eru erlendar eftirhermur, sem vita ekki lengur hvað þessari þjóð er fyrir bestu. En jeg hefi oft rekist á þessa útlendinga, sem lifa á erlendum snöpum og þykjast miklir af. Þeir geta sagt og sungið: „Jeg apaköttur er!“ — Enda ætti það að vera formáli, texti, meginmál og eftirmáli í ræðum þeirra og ritum og upphaf og endir á æfi þeirra og allri starfsemi.

Þá virtist sama þm. undarlegt og djarft teflt, ef löggjafarvaldið ákvæði um borgun til barnakennaranna, enda þótt ekki væri greitt úr ríkissjóði. — Jeg sje ekki, að það sje neitt djarft að ákveða með lögum að borga einhverjum eitthvað. Hvað getur þm. (Þorst. J.) haft á móti því, að sett sjeu lög, er tryggja þessum mönnum kaup? Þeim sjálfum má standa á sama, hvaðan þeir fá borgunina fyrir starf sitt. Hjer er því ekki um nein svik að ræða við kennarana, heldur hitt, að láta rjetta aðilja borga þeim.

Jeg efast ekki um, að margt er það fleira í ræðu háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), sem vel mætti svara, en læt þó þetta nægja.

Fjvn. var neydd til að bera þetta frv. fram sjálf, áður en hún legði síðustu hönd á fjárlögin, og hún hefir með því viljað skifta um fræðslukerfi, þannig að fræðslan yrði bæði betri og ódýrari.

Jeg veit, að frv. þetta verður hiklaust samþykt en hitt má vel vera, að því verði breytt og það aukið ýmsum ákvæðum, sem í það vanta nú. En til þess sýnast mjer aðrir líklegri en sá háttv. þm., sem síðast lagðist svo djúpt og stökk svo hátt, því jeg man ekki til, að hann hafi, í sinni löngu ræðu, bent á nokkuð það, sem verða mætti frv. til bót?