10.03.1922
Neðri deild: 19. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (1158)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Sigurður Stefánsson:

Jeg hlýddi með athygli á ræður hv. þm. í gær um þetta mál, en skoðun mín á þeim ræðum er sú, að þær hafi allmjög farið fyrir ofan garð og neðan hjá frv., en ekki snert kjarna þess. Jeg tel þær því hafa verið óþarfar og lítið á þeim að græða.

Meðal annars var talað um, að frv. þetta kollvarpaði grundvelli gildandi fræðslulaga. En slík er alls ekki meining frv. Þarf ekki lengra að lesa en fyrirsögn frv. til þess að sjá, að svo er. Fyrirsögnin er um frestun á framkvæmd fræðslulaganna, og ættu allir að geta sjeð, að eitt er að fresta og annað að kollvarpa. Það mun alls ekki hafa verið meining hv. fjvn. með frumvarpi þessu að ráðast á grundvöll fræðslulaganna eða gera á þeim gagngerðar breytingar nú þegar, heldur hitt, að spara fje ríkissjóðs. Hv. deild hefði því vel getað sparað sjer umr. þess vegna, að hjer er ekki um neinar grundvallarbreytingar að ræða, heldur um smábreytingar, sem eru nauðsynlegar meðan frestun laganna stendur. En Alþingi hefir óbundnar hendur um það, hve fresturinn verður langur, hvort heldur eitt ár eða fleiri.

Það er vafalaust, að aðaltilgangur hv. fjvn. með frv. þessu er sá, að spara fje. Og jeg tel tvímælalausan sparnað að frv. Hitt er annað mál, hvernig fer með barnafræðsluna sjálfa, hvort hún biði verul. hnekki af samþykt frv. eða ekki. Og jeg skal játa það, að þetta frv. kemur allhart niður á landsmönnum, en eftir því orðspori, sem jeg hefi heyrt utan af landi, hygg jeg, að þeir sjeu fáir, sem ekki sjá nú þörfina á því að spara fje ríkissjóðs, og það jafnvel þótt einhverjir þykist við það verða hart úti. Í þessu sambandi má einnig minna á það, að stjórnin hefir nú í fjárlagafrv. sínu klipið af ýmsum bráðnauðsynlegum framkvæmdum, t. d. ýmsum síma- og vegalagningum o. fl. Kemur þetta vitanlega hart niður á ýmsum, en nauðsyn brýtur lög, hjer sem annarsstaðar. Segi jeg þetta alls ekki til þess að álasa fyrverandi stjórn, heldur hefir hún miklu fremur með þeim sparnaðartill. reist sjer góðan minnisvarða.

Um ræðu hv. þm. Dala. (B. J.) vil jeg leyfa mjer að geta þess, að mjer fanst hún fara nokkuð í aðra átt en meining fjvn. hefir verið, eftir því, sem jeg hefi heyrt, því að fyrir henni mun aðallega hafa vakað sparnaðurinn. Jeg veit það vel, að það er ilt verk að skamta ríkissjóðinn nú, þegar svona þröngt er í búi, og jeg vil þakka hv. fjvn. fyrir þessa tilraun til þess að komast hjá því að skila fjárlögunum með halla, því síst veitti nú af því að skila þeim fremur með tekjuafgangi, því jeg er í raun og veru hræddur um, að sumar upphæðir í fjárlagafrv. geti farið allmikið fram úr áætlun, landinu í óhag. Vil jeg þar nefna t. d. afborganir og vexti af erlendum lánum, sem hljóta að verða hærri en áætlað er, vegna gengismunarins.

Jeg hygg, að okkur gangi illa að verja það fyrir þjóðinni, ef við nú skellum skolleyrum við frv. eins og þessu, sem sparar fje landsins til mikilla muna, þó að það valdi nokkrum kostnaði og óþægindum fyrir landsmenn.

Jeg hefi heyrt það undir væng, frá hv. fjvn., að ef frv. þetta næði fram að ganga, mundi sparast alt að ¼ milj. kr., og getur því oltið á samþykt frv., hvort fjárlögin verða afgreidd með halla eða hallalaus. Og ef með þessu frv. má koma í veg fyrir halla á fjárlögunum, þá get jeg ekki skilið það, að kjósendur stökkvi upp á nef sjer, þó að þingið samþ. nú þær sparnaðarráðstafanir, sem vel má verja.

Að lokum get jeg ekki stilt mig um að drepa á eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.). Hann hjelt því fram, að ef fyrirkomulagi barnafræðslunnar væri breytt í það horf, sem frv. þetta fer fram á, þá mundi fara svo, að unglingar yrðu svo illa undirbúnir, að þeir gætu ekki gengið inn í æðri skóla, svo sem gagnfræðaskóla og ýmsa sjerskóla. En jeg vil í þessu sambandi benda á Möðruvallaskólann gamla. Engin var þá barnafræðsla lögskipuð í landi hjer, en þó mun reynslan hafa sýnt það ótvírætt, að til þess skóla komu síst ver undirbúnir nemendur en þeir, sem nú leita í gagnfræðaskólana. Og þeir, sem útskrifuðust í þann tíð úr Möðruvallaskóla, eftir að eins tveggja vetra nám, munu síst hafa reynst ónýtari menn en þeir, sem nú útskrifast úr gagnfræðaskólum eftir þriggja vetra nám.

Það er alls ekki rjett hjá hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), að hjer sje verið að vekja upp gamlan draug með frv. þessu. Tilskipunin frá 1746, sem hann vitnar í, hefir aldrei verið afnumin og er því enn í fullu gildi. Jeg get vel fallist á, að prestarnir hafi fræðsluna á hendi í bráðina, en jeg tel ekki sanngjarnt að leggja slíkt á herðar þeirra fyrir fult og alt. Það hefir margt breyst síðan 1746; prestunum hefir síðan stórum verði fækkað, og sum prestaköll eru nú orðin svo stór og víðlend, sökum hóflausra sameininga, að presturinn getur ekki haft fullkomið eftirlit með fræðslunni; þess vegna get jeg ekki hallast að þessu fyrirkomulagi til fram- búðar, en jeg er ekki á móti því um stutta stund, meðan reynt er að finna annað heppilegra.

Jeg held því, að hv. deild drýgði ekkert ódæði, þó að hún samþ. frv. Okkur er nauðugur einn kostur að spara nú, þegar ríkissjóður er á heljarþröminni. Og með þessum formála mun jeg hiklaust greiða atkv. með frv.