10.03.1922
Neðri deild: 19. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (1164)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (S. E.):

Að eins örstutt athugasemd út af ræðu hv. þm. Dala. (B. J.). — Hv. þm. gat um það, sem jeg hafði í raun og veru ekki heyrt áður, að sparnaður við frv. þetta mundi nema alt að 200 þús. kr. En þegar nú litið er á ástæður frv., þá er mjög erfitt að skilja þennan sparnað.

1) Er gert ráð fyrir að nota mikinn hluta af sparnaðarfjenu til aukinnar unglingafræðslu,

2) Nefndin gengur út frá því, að sjá kennurunum fyrir nýjum stöðum, svo að þeir missi einskis í við þessar ráðstafanir. En hvernig er hægt að gera slíkt nú í atvinnuleysinu, án útgjalda fyrir ríkissjóðinn?

Þar sem nú þetta tvent fylgir með í ástæðum frv., þá er mjer algerlega óskiljanlegt, að hjer sje um nokkurn sparnað að ræða.

Hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að sjer þætti furðulegt, að jeg teldi fjvn. ekki færa til þess að koma fram með till. um eitt atriði í skólamálunum, þar sem jeg hefði treyst mjer til að verða kenslumálaráðherra.

En jeg vil endurtaka það, að hjer er ekki um neitt smáatriði að ræða, heldur grundvallaratriði og gerbreyting á núverandi fræðslukerfi. Jeg stend fyllilega við það, að nefnd, sem er svo störfum hlaðin sem fjvn., hafi ekki tíma til þess að gera till. um slíkt stórmál, sem hjer er um að ræða.

Þá vildi sami hv. þm. (B. J.) neita því, að barnafræðslufyrirkomulagið hjer væri fast orðið. Þar til er því að svara, að fyrirkomulag þetta er frá 1907, og það er orðið svo fast, að þó að hv. þm. Dala. (B. J.) hafi hvað eftir annað komið fram með brtt. við það, þá hafa þær ekki náð fram að ganga.

Enn fremur sagði hv. þm. Dala. (B. J.), að eftir að kennararnir væru búnir að fá veitingu, þá væri afarörðugt að segja þeim starfinu upp. Þetta er að vísu rjett, en jeg vil bæta því við, að það getur líka verið hart að segja þeim upp stöðunni nú, því kennararnir hafa verið settir með von um að fá að halda starfa sínum. En slíkt kemur auðvitað ekki til greina hjá hv. fjvn., úr því að hún ætlar að sjá kennurunum fyrir nægum stöðum öðrum. En svo framarlega sem slíkt er meining hv. nefndar, þá er sparnaðurinn enginn, eins og jeg hefi þegar bent á. Þá er hjer eingöngu að ræða um gerbreytingu á fræðslukerfi þessa lands, og við því ætti þingið ekki að gleypa að órannsökuðu máli.