10.03.1922
Neðri deild: 19. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (1170)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (S. E.):

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) kvaðst ekki vera viss um, að segja mætti kennurum upp stöðum þeirra, eftir að búið væri að veita þeim, án þess að þeir hefðu lagalegan rjett á endurgjaldi. En það stendur ótvírætt í 14. gr. laganna frá 1919, að ef breyting verði gerð á fræðslu- eða skólahjeruðum eða fræðslumálum yfirleitt, sem geri stöðu kennarans óþarfa, þá skuli hann láta af henni endurgjaldslaust, eftir löglega uppsögn. Það er enginn vafi á því, að lagaskylda er engin til þess að greiða endurgjald; um það geta allir lögfræðingar verið sammála. Það er þá að eins „mórölsk“ skylda, ef um skyldu er að ræða í því efni. Annars virðist mjer alt önnur skýring hafa komið fram hjá háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) en hjá hv. þm. Dala. (B. J.). — Hv. þm. Dala. hjelt fram fjárhagshliðinni sem ástæðu frv., eins og jeg, en hv. 2. þm. Húnv. hjelt fram öðru.