11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (1173)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg ætla mjer ekki að halda langa ræðu og vildi óska, að málið yrði nú ekki rætt öllu lengur.

En um leið og jeg þakka fyrir undirtektirnar, þá vil jeg minna hv. þm. á það, að þótt það sje kjarni þessa máls, að fjvn. vill breyta um fræðslukerfi og auka þekkingu í landinu, þá er þó einnig um mikinn sparnað að ræða frá því, sem verið hefir. Munu því landsmenn sjá af atkvgr., hverjir eru sparnaðarmenn og hverjir ekki.

Og hvort sem heldur verður, að menn drepa mál þetta þegar með rökstuddri dagskrá eða fá það annari nefnd, sem þó mun vera á móti allri þingvenju, þá verður fjvn. að gera till. um þessa liði fjárlaganna, og sniða þær þá eftir því, að menn vilja ekki spara ríkissjóði þessar 200 þús. kr.