11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (1177)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Jónsson:

Það er satt hjá hv. þm. Dala. (B. J.), að það er algengt, að nefndir beri fram mál um ýms efni, en að hitt sje ekki algengt, að máli sje vísað frá einni nefnd til annarar. En það er af því, að nefndir halda sjer í till. sínum venjulega innan sinna eigin vjebanda, en eru ekki að grauta í fjarskyldum málum. En ef þær geta það, þá er ekki nema rjett, að viðkomandi nefnd fái að líta á málið. Að minsta kosti hefði hv. fjvn. getað leitað umsagnar hv. mentmn., áður en frv. kom fram. En svo er ekki.

Það mætti æra óstöðugan að þrátta um það, hvor nefndin, mentmn. eða fjvn., hefir meira vit á mentamálum, en þess eins er að gæta, að það er hlutverk mentmn., en ekki fjvn., að fást við mentamálin, enda hefir fjvn. ærið nóg að starfa, þótt hún fáist ekki við þau, svo að þó að hana bresti ekki vitið, þá brestur hana tímann til að fást við þau. Er það og góð regla að leita álits viðkomandi nefndar, en það mun ekki hafa verið gert hjer.

Annars er það dálítið einkennilegt, að hv. fjvn.menn skuli vera sinn á hverju máli um tilgang frv. Hv. þm. Dala. ber það fram vegna mentamálanna, en hv. 2. þm. Húnv. sparnaðarins vegna, og nú lýsir hv. þm. Str. yfir því, að fjvn. hafi gert það í þeim tilgangi helst, að hún hafi viljað taka þátt í sparnaðarauglýsingunni. — Hún hafi ekki getað setið þar hjá.