11.03.1922
Neðri deild: 20. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (1178)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Pjetur Þórðarson:

Það var hv. þm. Str. (M. P.), sem kom mjer til þess að standa upp. Hann lagði aðaláhersluna á sparnaðinn, og það er þessi sparnaðathugsun, sem í fljótu bragði hefir komið mjer í mesta vandann um það, hvernig jeg láti atkv. mitt falla.

En við nánari umhugsun sýndist mjer sem óheppilegt mundi að byrja hjer sparnaðinn og á þennan hátt, því að í raun og veru sparaðist hjer að eins í fjárlögum, en sá sparnaður vinst upp annarsstaðar á þjóðinni, þar sem frv. gerir ákveðið ráð fyrir því, að ekki verði slakað á fræðsluskyldunni. — Er hjer ólíku saman að jafna eða frestun á byggingu brúa, vita o. s. frv., en aftur á móti væri það hliðstætt, ef hv. fjvn. fjellist á það, að rjett mundi að brúa einhverja ána, en segði um leið, að það mætti ekki gera það á kostnað ríkissjóðs, heldur skyldu bændur bera þann kostnað sjálfir. Hjer er því í raun rjettri hvorki um frestun nje sparnað að ræða, heldur að eins það að knýja þjóðina til að bera þann kostnað, sem ríkissjóður bar áður; kostnað, sem á þennan hátt yrði síst minni og kæmi miklu misjafnar niður, og mundi koma harðast við þá, er síst skyldi. En þetta er óneitanlega dálítið einkennileg aðferð, því ástæðan til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs hlýtur að vera sú, að ekki dugi að íþyngja landsmönnum með gjöld til hans, en ekki sýnist það koma að neinu leyti ljettara niður, þó að gjaldið sje tekið úr vasa þeirra svona, enda þótt það renni ekki í ríkissjóðinn.

Þessa greinargerð vil jeg láta fylgja mínu atkv., og hirði jeg eigi um það, hvort jeg verði talinn meiri eða minni sparnaðarmaður eftir en áður.